Upp­gjör: Tinda­stóll - Fylkir 3-0 | Fyrsta tap ný­liðanna

Hinrik Wöhler skrifar
fylkir anton
vísir/Anton

Tindastóll sigraði Fylki í fjórðu umferð Bestu deildar kvenna á Akureyri í dag. Þetta var annar sigur Tindastóls í röð en leikurinn endaði 3-0. 

Þetta var fyrsti heimaleikur Tindastóls á tímabilinu en var þó ekki leikinn á Sauðárkróksvelli þar sem völlurinn er ekki leikfær eftir mikið vatnsveður í apríl og var brugðið á það ráð að færa leikinn á Greifavöllinn á Akureyri.

Stólarnir voru ekki lengi að opna markareikninginn á Greifavellinum. Hin sextán ára gamla Elísa Bríet Björnsdóttir skoraði sitt fyrsta mark í Bestu deildinni á 12. mínútu leiksins. Sauðkrækingar pressuðu hátt á miðverði Fylkis og Kayla Bruster, miðvörður Fylkis, missti boltann nálægt vítateignum og endaði sóknin á því að Elísa komst ein í gegn og afgreiddi færið snyrtilega framhjá Tinnu Brá Magnúsdóttur í marki Fylkis.

Stólarnir voru hættulegri í fyrri hálfleiknum og fengu þó nokkur færi þar sem leikmenn liðsins komust í ákjósanlega stöðu í vítateig Fylkis. Tinna Brá í marki gestanna varði oft vel á tíðum vel og hélt samherjum sínum inn í leiknum.

Annað mark leiksins kom undir lok fyrri hálfleiks. Á 44. mínútu leiksins gaf Laufey Harpa Halldórsdóttir háa fyrirgjöf frá vinstri vængnum sem Tinna Brá Magnúsdóttir náði ekki að halda og missti boltann út í vítateiginn. Þar kom María Dögg Jóhannesdóttir á mikilli siglingu og hamraði boltann í netið.

Tindastóll leiddi í hálfleik með tveimur mörkum gegn engu og var það nokkuð verðskuldað miðað gang fyrri hálfleiks.

Fylkir kom beittari til leiks í síðari hálfleik og ýtti liðinu fram á við. Leikmenn liðsins pressuðu hærra og reyndu að opna vörn Tindastóls án árangurs. Fylkir fékk fjöldann allan af föstum leikatriðum, meðal annars tíu hornspyrnur í leiknum, en tókst ekki að nýta sér það.

Laufey Harpa Halldórsdóttir gerði svo út um leikinn á 86. mínútu þegar Jordyn Rhodes flikkaði boltanum inn fyrir varnarlínu Fylkis eftir markspyrnu og Laufey komst ein á móti Tinnu Brá í markinu. Laufey kláraði færið af öryggi og innsiglaði sanngjarnan 3-0 sigur Tindastóls.

Atvik leiksins

Elísa Bríet Björnsdóttir skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild eftir góða pressu og samleik við Birgittu Rún Finnbogadóttur. Það setti tóninn fyrir leikinn og fær sóknarmaðurinn ungi að eiga atvik leiksins.

Stjörnur og skúrkar

Þetta var sannarlega liðsheildarsigur hjá Stólunum. Gott sem allir leikmenn liðsins skiluðu prýðis frammistöðu, allt frá Monicu Wilhelm í markinu og til Birgittu Rún Finnbogadóttur og Elísu Bríet Björnsdóttur í framlínunni.

Laufey Harpa Halldórsdóttir var allt í öllu á vinstri vængnum hjá Tindastól. Var mikið í boltanum og kom mörgum hættulegum fyrirgjöfum inn í vítateig Fylkis. Hún rak síðan smiðshöggið á sigurinn og kórónaði fínan leik með þriðja marki Tindastóls undir lok leiks.

Miðverðir Fylkis voru oft í vandræðum með pressu sóknarmanna Tindastóls í fyrri hálfleik. Það skilaði sér í mistökum frá Kaylu Bruster í fyrsta marki Tindastóls og hefði varnarmaðurinn líklegast viljað gera betur þar.

Dómarar

Þetta var rólegur leikur og lyfti Sveinn Arnarsson gula spjaldinu aðeins einu sinni á 90 mínútum. Fylkir gerði tilkall til þess að fá vítaspyrnu á 83. mínútu en Árbæingar vildu meina að boltinn hafi farið í hendina á varnarmanni Tindastóls. Sveinn lét það eins og vind um eyru þjóta og var það líklegast réttur dómur.

Stemning og umgjörð

Leikið var á Akureyri og hvorugt lið á heimavelli, það setti strik í reikninginn hvað varðar mætingu og umgjörð. Það var frekar rólegt yfir stúkunni í blíðskaparveðri á Akureyri en vonandi verður völlurinn á Sauðárkróki lagaður á næstu misserum og Sauðkrækingar eiga þá kost á að fjölmenna á völlinn í heimabyggð.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira