Innlent

„Fólk er bara að bíða“

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hjálmar Hallgrímsson er bæjarfulltrúi í Grindavíkurbæ.
Hjálmar Hallgrímsson er bæjarfulltrúi í Grindavíkurbæ.

Skjálftavirkni hefur aukist örlítið við Sundhnúksgígaröðina á Reykjanesskaga og ekkert lát er á landrisi. Eldfjallafræðingur segir að innstreymi í kvikuhólfið sé að hægjast sem gæti þýtt að lengri tími sé í næsta gos. Grindvíkingar sem gista í bænum bíða átekta.

Landris og smáskjálftavirkni við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram en örlítið fleiri skjálftar mældust í gær en síðustu daga. Veðurstofan bíður enn átekta en erfitt er að segja til um hvenær næsta kvikuhlaup hefst.

Eldvörp mögulega næst

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur telur að margt bendi til þess að næsta kvikuhlaup eigi sér stað við Eldvörp en ekki í Sundhnúksgígaröðinni þar sem síðustu gos hafa verið.

„Það er bara eðlilegt að það fari út í Eldvörp. Það er í miðjunni á flekamótunum en að vísu þarf að brjóta svolítið meira til þess að komast upp. Eins og þetta leit út í morgun, þessar GPS-mælingar, þá er eitthvað að slakna á innstreyminu. Kúrvurnar eru að fletjast út. Þannig það getur liðið töluverður tími þar til við fáum næsta eldgos,“ segir Ármann. 

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur.Vísir/Einar

Eldgos í Eldvörpum yrði með svipuðu sniði og gosin við Sundhnúk.

„Við vitum að svæðið er virkt og við vitum að það er von á gosi en það kemur ekkert óvænt. Við fáum alltaf einhvern klukkutíma, þrjá fjóra, til að bregðast við áður en það kemur upp,“ segir Ármann. 

Bíða átekta

Hjálmar Hallgrímsson bæjarfulltrúi er einn þeirra sem býr í Grindavík þessa dagana en gist er í á þriðja tug húsa. Hann segir stöðuna sérstaka en hann sefur þó vært á næturnar.

„Fólk er svo sem bara að bíða og sjá hvað gerist. Ég vona að þetta verði fyrir utan Grindavík og utan varnargarðanna. En þetta er bara bið,“ segir Hjálmar. „Ég veit að það hafa verið þessir smáskjálftar þarna en við höfum ekki fundið neina skjálfta í Grindavík. Þessir skjálftar finnast ekkert í Grindavík. Þannig það er ekki skrítið að það sé rólegt að sofa hér og gott.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×