Körfubolti

Sá besti ekki búinn að segja sitt síðasta orð

Sindri Sverrisson skrifar
Nikola Jokic sækir gegn Naz Reid í Minneapolis í nótt.
Nikola Jokic sækir gegn Naz Reid í Minneapolis í nótt. AP/Abbie Parr

Nikola Jokic var í aðalhlutverki þegar meistarar Denver Nuggets náðu sínum fyrsta sigri í einvíginu við Minnesota Timberwolves með 117-90 sigri í nótt. Indiana Pacers minnkuðu muninn í 2-1 í einvígi sínu við New York Knicks.

Með sigrinum í nótt minnkaði Denver muninn í 2-1 í einvígi sínu við Minnesota, í undanúrslitum vesturdeildarinnar.

Michael Malone, þjálfari Denver, nýtti sér það að margir virtust telja að Denver væri búið að vera, til að hvetja sína menn áfram, og það virtist duga vel.

Jokic var í vikunni valinn verðmætasti leikmaður NBA-deildarinnar í þriðja sinn og fagnaði því með 24 stigum, 14 fráköstum og níu stoðsendingum. Kanadamaðurinn Jamal Murray bætti við 24 stigum.

„Við spiluðum mikið einfaldari leik núna. Við vorum árásargjarnari en þeir. Ég held að það sé það sem breytti leiknum,“ sagði Jokic sáttur með svar Denver eftir fyrstu tvö töpin. Liðið náði mest 34 stiga forskoti í leiknum og hafði algjöra yfirburði í nótt en næsti leikur er á mánudaginn og þarf að vinna fjóra leiki.

Naumur fyrsti sigur Indiana

Í hinum leik gærkvöldsins náði Indiana að vinna 111-106 sigur gegn New York og forðast það að lenda 3-0 undir.

Kanadamaðurinn Andrew Nembhard var óvænt hetja Pacers en hann setti niður þriggja stiga skot þegar sautján sekúndur voru eftir og kom sínum mönnum yfir.

Tyrese Haliburton skoraði 35 stig fyrir Indiana og Donte DiVincenzo gerði slíkt hið sama fyrir New York.

Indiana getur jafnað einvígið á heimavelli á sunnudaginn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×