Sport

Reyndi að líma fótinn sinn fastan í stúkunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kona úr „Ultima Generazione“ umhverfisverndarsamtökunum reyndi að líma sig fasta en hér er hún fjarlægð af svæðinu.
Kona úr „Ultima Generazione“ umhverfisverndarsamtökunum reyndi að líma sig fasta en hér er hún fjarlægð af svæðinu. AP/Andrew Medichini

Umhverfisverndarsinnar trufluðu leik á Masters1000 tennismótinu í Róm þegar hópar fólks réðust inn á tvo tennisvelli á sama tíma.

Fólkið kom úr umhverfisverndarsamtökunum Ultima Generazione sem á íslensku gæti kallast síðasta kynslóðin.

Stöðva þurfti leik Madison Keys og Sorana Cirstea á Pietrangeli vellinum en leikurinn var í sextán manna úrslitum. Á sama tíma var truflaður tvíliðaleikur á öðrum velli.

Fólkið ruddist inn á völlinn og henti óþekktum vökva og pappírssnifsi á keppnisvöllinn.

Fólkið lét sér ekki nægja að merkja völlinn heldur reyndi einn þeirra að líma fótinn sinn fastan við stúkuna á tennisvellinum.

Í marsmánuði voru þrír handteknir úr baráttuhópnum Ultima Generazione fyrir að trufla Rómarmaraþonið.

Meðal baráttumála hópsins er að ítalska ríkið búi til skaðabótasjóð upp á tuttugu milljarða evra fyrir allt fólkið sem hefur orðið fyrir tjóni vegna loftslagsbreytinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×