Sport

Berst fyrir eigin lífi eftir að hafa bjargað lífi for­eldra sinna

Aron Guðmundsson skrifar
Mark Coleman var vígður inn í frægðarhöll UFC árið 2008. Hann berst nú fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum
Mark Coleman var vígður inn í frægðarhöll UFC árið 2008. Hann berst nú fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum Vísir/Getty

Mark Coleman, með­limur í frægðar­höll UFC-sam­bandsins, berst nú fyrir lífi sínu á sjúkra­húsi eftir að hafa hlotið slæma reyk­eitrun í kjöl­far þess að hafa drýgt mikla hetjudáð og bjargað móður sinni og föður út úr brennandi húsi.

Það er ESPN sem greinir frá. Eftir að Coleman hafði komið for­eldrum sínum á heilu og höldnu út úr brennandi húsinu gerði hann til­raun til þess að bjarga hundi fjöl­skyldunnar, Hammer, en það tókst því miður ekki.

„Pabbi var fluttur með sjúkra­flugi á sjúkra­hús þar sem að hann berst nú fyrir lífi sínu eftir þessa hetju­dáð sína,“ skrifar Morgan, dóttir Mark Coleman um föður sinn í færslu á sam­fé­lags­miðlinum Insta­gram.

Coleman er sann­kallaður braut­ryðjandi í heimi blandaðra bar­daga­lista. Hann varð fyrsti þunga­vigtar­meistari UFC sam­bandsins árið 1997 og var svo, árið 2008 vígður inn í frægðar­höll UFC.

Foreldrar Mark sluppu frá eldsvoðanum án teljandi meiðsla. Mark sjálfur liggur inn á gjörgæslu en NBC hefur það eftir fjölskyldumeðlimum að hann muni vinna þennan bardaga, líkt og bardagana fjölmörgu sem hann hefur unnið inn í bardagabúrinu.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×