Sport

Tár­vot goð­sögnin vöknuð eftir að hafa bjargað lífi for­eldra sinna

Aron Guðmundsson skrifar
Mark Coleman drýgði svo sannarlega hetjudáð á dögunum er hann bjargaði foreldrum sínum úr brennandi húsi
Mark Coleman drýgði svo sannarlega hetjudáð á dögunum er hann bjargaði foreldrum sínum úr brennandi húsi Vísir/Samsett mynd

Mark Coleman, með­limur í frægðar­höll UFC-sam­bandsins, er kominn til með­vitundar og í stöðugu á­standi eftir að hafa verið lagður inn á sjúkra­hús og svæfður vegna á­verka sem hann hlaut við að bjarga for­eldrum sínum út úr brennandi húsi.

Eftir að Coleman hafði komið for­eldrum sínum á heilu og höldnu út úr brennandi húsinu gerði hann til­­raun til þess að bjarga hundi fjöl­­skyldunnar, Hammer, en það tókst því miður ekki.

Coleman var fluttur með sjúkra­flugi á sjúkra­hús þar sem að um tíma var óttast um líf hans. For­eldrar Coleman sluppu frá elds­voðanum án teljandi meiðsla en hann lá sjálfur inn á gjör­gæslu­deild í nokkra daga.

Coleman var svæfður svo læknar sjúkra­hússins gætu hlúið að lungum hans sem hlutu mikinn skaða vegna hitans og reyksins sem fyllti brennandi húsið en fjöl­skylda hans hefur nú birt mynd­band frá her­bergi Coleman á sjúkra­húsinu þar sem sjá má hann glað­vakandi.

Á mynd­skeiðinu má sjá hann taka utan dætur sínar og nánast um leið bresta í grát.

„Ég er hamingju­samasti maður í heimi,“ mátti heyra Coleman segja. „Ég sver til guðs, ég er svo heppinn. Ég trúi því ekki að for­eldrar mínir séu á lífi. Ég þurfti að taka á­kvörðun. Ég fór út úr her­bergi mínu og í átt að úti­dyra hurðinni. Um leið var staðan orðin hræði­leg og ég náði ekki andanum. Þurfti að fara út áður en ég hélt aftur inn í brennandi húsið. Ég trúi þessu ekki. Ég náði þeim en ég fann ekki Hammer.“

Coleman er sann­kallaður braut­ryðjandi í heimi blandaðra bar­daga­lista. Hann varð fyrsti þunga­vigtar­meistari UFC sam­bandsins árið 1997 og var svo, árið 2008 vígður inn í frægðar­höll UFC.

Foreldrar Mark sluppu frá eldsvoðanum án teljandi meiðsla. Mark sjálfur liggur inn á gjörgæslu en NBC hefur það eftir fjölskyldumeðlimum að hann muni vinna þennan bardaga, líkt og bardagana fjölmörgu sem hann hefur unnið inn í bardagabúrinu.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×