Sport

Sakaður um að hóta að drepa starfs­konu lyfjaeftirlitsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jon Jones er sakaður um að hóta starfskonu lyfjaeftirlitsins lífláti.
Jon Jones er sakaður um að hóta starfskonu lyfjaeftirlitsins lífláti. Louis Grasse/PxImages/Icon Sportswire via Getty Images

Bardagakappinn Jon Jones, þungavigtarmeistari í UFC, hefur verið kallaður fyrir rétt í kjölfar þess að hann var sakaður um að hóta starfskonu lyfjaeftirlitsins lífláti.

Atvikið er sagt hafa átt sér stað þann 30. mars síðastliðinn, en var tilkynnt til lögreglu síðastliðinn föstudag. Í skýrslu lögreglu kemur fram að Jones hafi verið undir áhrifum áfengis. Hann hafi hótað að drepa konu sem starfar fyrir lyfjaeftirlitið og tekið síma hennar þegar hann var beðinn um að gefa þvagsýni í viðurvist tveggja starfsmanna lyfjaeftirlitsins.

Sjálfur hefur Jones þó svarað þessum ásökunum með því að birta upptöku úr öryggismyndavél sem staðsett er við heimili hans. Hann segir að þar sjáist starfsfólk lyfjaeftirlitsins yfirgefa heimili hans eftir að lyfjaprófinu hafi verið lokið og að þar megi sjá hann gefa þeim háa fimmu og faðmlag.

Jones sakar starfsfólk lyfjaeftirlitsins um að brjóta staðlaðar samskiptareglur og heilbrigðiseftirlitslög, en ítrekar að samskipti hans við starfsfólkið hafi endað á vinalegum nótum, án nokkurra hótanna.

Jones, sem er 36 ára gamall, hefur ekki barist síðan hann sigraði Ciryl Gane í mars á síðasta ári. Hann hefur ekki tapað bardaga síðan gegn Matt Hamill árið 2099, en það er hans eini ósigur á ferlinum.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×