Viðskipti innlent

Stefna á opnun fyrsta skamm­tíma raf­orku­markaðarins á næsta ári

Kjartan Kjartansson skrifar
Sölufyrirtæki geta nú keypt langtímavörur frá framleiðendum raforku á uppboðsmörkuðum. Elma stefnir á opnun fyrsta markaðarins með skammtímavörur á næsta ári.
Sölufyrirtæki geta nú keypt langtímavörur frá framleiðendum raforku á uppboðsmörkuðum. Elma stefnir á opnun fyrsta markaðarins með skammtímavörur á næsta ári. Vísir/Vilhelm

Dótturfélag Landsnets segist stefna að því að setja fyrsta uppboðsmarkaðinn með skammtímasamninga um raforku í byrjun næsta árs. Þegar hefur verið gengið frá samstarfssamningi við evrópska raforkukauphöll í tengslum við verkefnið.

Hröð þróun á sér nú stað á heildsölumarkaði með raforku á Íslandi. Nú í vor hófu tvær kauphallir með langtímasamninga þar sem sölufyrirtæki geta keypt raforku af framleiðendum. Önnur þeirra er á vegum fyrirtækisins Vonarskarðs ehf. en hitt á vegum Elmu, dótturfélags Landsnets.

Nú segist Elma hafa gengið frá samstarfssamningi við evrópsku raforkukauphöllina Nord Pool um opnun fyrsta skammtíma raforkumarkaðarins á Íslandi. Þar verði boðið upp á uppboðsmarkað með dags fyrirvara en í framhaldinu sé stefnt að því að bæta við viðskiptum innan dags.

Stefnt er að því að markaðurinn fari í loftið í byrjun árs 2025. Á skammtímamarkaðinum segist Elma gegna hlutverki miðlægs mótaðila sem tryggi öryggi og gagnsæi fyrir alla þátttakendur.

Langtímamarkaður Elmu er í samstarfi við króatíska fyrirtækið Cropex Power Exchange. Nord Pool er með höfuðstöðvar í Ósló í Noregi og er í eigu evrópsku kauphallarinnar Euronext og TSO Holding, sem er í eigu dreifiaðila raforku á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum.


Tengdar fréttir

Lands­virkjun selur í fyrsta skipti í raf­orku­kaup­höll

Stærsta orkufyrirtæki landsins Landsvirkjun tekur nú í fyrsta skipti þátt í söluferli á rafmagni í gegnum nýstofnaða raforkukauphöll. Fyrirtækið segist einnig skoða þátttöku á öðru markaðstorgi með raforku sem verður opnað síðar.

Markaðs­torg með raf­orku spretta upp

Fyrsta íslenska raforkukauphöllin hefur starfsemi sína í dag. Landsvirkjun, langumsvifamesti aðilinn á raforkumarkaði, er ekki þátttakandi í kauphöllinni eins og sakir standa. Dótturfélag Landsnets opnar einnig uppboðsmarkað á næstu vikum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×