Innlent

Mikill meiri­hluti hlynntur dánaraðstoð

Árni Sæberg skrifar
Mikill meirihluti vill að læknum verði heimilað að aðstoða fólk við að binda enda á jarðvist þess.
Mikill meirihluti vill að læknum verði heimilað að aðstoða fólk við að binda enda á jarðvist þess. Getty/tofumax

Um 77 prósent þjóðarinnar eru hlynnt því að dánaraðstoð verði leyfð á Íslandi, um fimmtán prósent eru hvorki hlynnt né andvíg og aðeins um sjö prósent eru andvíg.

Þetta er niðurstaða könnunar sem Prósent framkvæmdi dagana 30. apríl til 5. maí. Í könnuninni voru eftirfarandi tvær spurningar um dánaraðstoð lagðar fyrir:

  • Á heildina litið, hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur/t) ert þú því að dánaraðstoð verði leyfð á Íslandi? Með dánaraðstoð er átt við að hjálpa einstaklingi að binda enda á líf sitt með mannúðlegum hætti á grundvelli yfirlýsts samþykkis hans.
  • Hversu sammála eða ósammála ertu því að það eigi að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um lögleiðingu dánaraðstoðar?

Í tilkynningu Prósents segir að um 77 prósent þjóðarinnar séu hlynnt því að dánaraðstoð verði leyfð á Íslandi, um fimmtán prósent séu hvorki hlynnt né andvíg og aðeins um sjö prósent séu andvíg.

Prósent

Þá segir að ekki sé marktækur munur á afstöðu karla og kvenna, höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar eða ólíkra tekjuhópa.

Píratar mest hlynntir en Vinstri græn síst

Þegar niðurstöður séu skoðaðar eftir fylgi flokka megi sjá að kjósendur Pírata eru marktækt hlynntari því að leyfa dánaraðstoð en kjósendur allra annarra flokka nema tveggja, Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins. 

Kjósendur Miðflokksins og Vinstrihreyfingarinnar – Grænt Framboð séu marktækt andvígari en kjósendur annarra flokka.

Konur vilja frekar þjóðaratkvæðagreiðslu en karlar

Hvað seinni spurninguna varðar segir að um 62 prósent séu sammála því að halda ætti þjóðaratkvæðagreiðslu um lögleiðingu dánaraðstoðar, um 21 prósent séu hvorki sammála né ósammála og um 17 prósent séu ósammála.

Marktækur munur sé á afstöðu kynja. Konur séu að jafnaði frekar sammála því að halda eigi þjóðaratkvæðagreiðslu um lögleiðingu dánaraðstoðar samanborið við karla, það er 65 prósent kvenna á móti 59 prósentum karla.

Loks segir að könnunin hafi verið netkönnun meðal könnunarhóps Prósents. Úrtakið hafi talið 2.500 og fjöldi svara 1.253.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×