Upp­gjör, við­töl og myndir: Grinda­vík-Valur 93-89 | Gulir jöfnuðu metin

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Sigrinum fagnað.
Sigrinum fagnað. Vísir/Diego

Grindavík jafnaði metin í úrslitaeinvígi Subway-deildar karla í körfubolta þökk sé ótrúlegum fjórða leikhluta gegn Val. Framan af leik stefndi allt í að Valur væri að komast 2-0 yfir í einvíginu en gulklæddir Grindvíkingar voru ekki á þeim buxunum. Staðan í einvíginu því jöfn 1-1 fyrir næsta leik liðanna sem fram fer á Hlíðarenda á föstudag.

Valur byrjaði leikinn af krafti og sóttu strax forystuna. Það var mikill hraði í þessu í upphafi leiks og liðin skiptust á að reyna keyra upp hraðann.

Valur var skrefinu á undan í fyrsta leikhluta og náðu að safna upp smá forskoti. Undir lok leikhlutans setti Justas þrist fyrir gestina með nokkrar sekúndur eftir á klukkunni. Deandre Kane æddi upp völlinn og náði að sækja tvö vítaskot með undir sekúndu eftir á klukkunni sem hann setti bæði ofan í.

DeAndre Kane var magnaður í kvöld.Vísir/Diego

Valsmenn voru fljótir að grýta boltanum fram í hendurnar á Kára Jónssyni sem setti þrist úr horninu þegar flautann gall. Dómararnir fóru í skjáinn og athuguðu þetta og komust að þeirri niðurstöðu að karfan væri ekki gild. Þrátt fyrir það þá leiddu Valsmenn eftir fyrsta leikhluta 18-29.

Grindvíkingar mættu hinsvegar grimmir inn í annan leikhluta. Ólafur Ólafsson setti þrist fyrir gestina og kveikti í stúkunni. Valur Orri Valsson setti annan þrist áður en Ólafur Ólafsson setti þriðja þristinn. 

Valsmenn náðu þó að setja sín stig á töfluna á milli en mómentið þarna var alveg með Grindavík. Valur stóð af sér storminn og kláraði leikhlutann sterkt og fóru inn í hálfleikinn með sjö stiga forystu 45-52.

Það var líf og fjör í kvöld.Vísir/Diego

Þriðju leikhluti var að ekkert svo ósvipaður öðrum leikhluta þar sem Grindavík gerðu vel í að koma sér í góða stöðu en Valur náði að enda leikhlutann sterkt. Það var mikið jafnræði með liðunum í þriðja leikhluta og fóru Valsmenn með sjö stiga forystu úr honum 66-73.

Deandre Kane átti eftir að hafa mikið að segja í fjórða leikhluta. Hann setti niður fyrstu stigin af vítalínunni og leiddi svo endurkomu heimamanna. Grindavík náðu að jafna leikinn um miðbik leikhlutans og var allt í járnum allt fram í lokinn þar sem Daniel Mortensen setti þrist úr horninu með 19 sekúndur eftir á klukkunni og kom Grindavík í þriggja stig forskot. 

Valsmenn náðu ekki að svara og fór svo að Grindavík fór að lokum með torsóttan 93-89 sigur af hólmi.

Grindavík fagnar.Vísir/Diego

Atvik leiksins

Það væri í raun hægt að nefna Deandre Kane í öllum fjórða leikhluta en hann leiddi þessa endurkomu hjá Grindavík. Atvikið verður hinsvegar að vera þristurinn frá Daniel Mortensen sem saltaði leikinn.

Stjörnur og skúrkar

Deandre Kane var stjarna leiksins. Var allt í öllu hjá Grindavík og Valsmenn áttu fá svör við hans leik. Endaði leikinn með 35 stig og reif einnig niður 12 fráköst. Daniel Mortensen var líka ískaldur í horninu þegar mest á reyndi og setti mikilvægustu stigin niður.

Mortensen vissi ekkert hvernig hann átti að fagna körfunni sinni undir lok leiks.Vísir/Diego

Hjá Val var Justas Tamulis atkvæðamestur með 21 stig og var virkilega öflugur framan af fyrir Val en fór minna fyrir honum þegar leið á. Taiwo Badmus var líka flottur og hélt þessu spennandi í lokin. Hann endaði með 18 stig.

Dómarinn

Dómarar leiksins voru virkilega góðir að mínu viti. Enginn atriði sem hægt er að pikka sérstaklega út. Ekkert um skrítna dóma og línan var nokkuð stöðug út leikinn. Heilt yfir bara hörku frammistaða hjá öllum þrem liðum leiksins.

Stóðu sig með prýði.Vísir/Diego

Stemingin og umgjörð

Stemningin var frábær. Báðar stuðningsmannasveitir sungu og trölluðu með sínum liðum. Þegar við erum komin í finals þá er ekki við öðru að búast en stórkostlegri umgjörð þar sem allt er upp á 10! Þetta er sennilega besti tími ársins eða allavega í harðri samkeppni við jólin!

Það var vel mætt.Vísir/Diego

„Rosaleg einstaklings gæði í þessu Grindavíkurliði“

„Alltaf súrt að tapa, óháð því hvernig leikurinn er búin að þróast en maður er vissulega mjög ósáttur við þetta,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Vals.Vísir/Diego

„Alltaf súrt að tapa, óháð því hvernig leikurinn er búin að þróast en maður er vissulega mjög ósáttur við þetta,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Vals.

Leikurinn virtist breytast í þriðja leikhluta en þá féll mómentið svolítið í hendur Grindvíkinga.

„Saga leiksins er svolítið í sóknarfráköstum hjá þeim hérna í seinni hálfleiknum og körfur sem þeir fá eftir það. Þeir taka tvisvar sóknarfrákast eftir víti hjá okkur og Kane skorar ég veit ekki þrjár, fjórar körfur eftir sóknarfráköst líka. Það er fúlt því við vorum í allskyns tækifærum á að fara og klára stoppin okkar en Grindavík gerði vel.“

„Það eru rosaleg einstaklings gæði í þessu Grindavíkurliði eins og Kane sýnir og Mortensen með þessu skoti í lokin.“

Daniel Mortensen setti þrist í lokinn sem kláraði leikinn fyrir Grindavík og aðspurður var Finnur meira ósáttur með sóknirnar á undan heldur en vörnina við þessum þrist.

„Kannski ósáttur með körfurnar á undan. Þetta var frábærlega gert hjá Grindavík.“

„Þeir fengu sóknarfráköst sem bitu okkur í rassinn“

Booker í leik kvöldsins.Vísir/Diego

„Mér fannst hérna í endan að þeir fengu nokkur sóknarfráköst sem að bitu okkur í rassinn. Ef að við boxum út og fáum þau þá er séns að fá nokkur skot hinumeginn. Við fengum nokkur tækifæri þarna í endann til að skora en Mortensen hitti bara geggjaðan þrist hérna í horninu og því fór það þannig,“ sagði Frank Aron Booker leikmaður Vals eftir leikinn í kvöld.

Grindavík tóku mikilvæg sóknarfráköst í lokinn en það er eitthvað sem Valsliðið hefur verið að gera vel. Valsmenn voru því teknir á eigin bragði.

„Já það var akkúrat þannig. Sérstaklega á vítalínunni þegar við erum með fleiri menn inni í teignum og eigum bara að koma upp með það en einhvern veginn fór boltinn bara til þeirra og þannig fór leikurinn.“

Grindavík fóru á sterkt áhlaup undir lokin sem að lokum landaði þeim sigri.

„Körfuboltinn er svona, þetta fer fram og tilbaka. Þetta er hæfileikaríkt lið og við vitum að þeir fara á run hér og þar. Við þurfum bara að reyna að hægja á því eins mikið og við getum og koma okkur í betri stöðu. Svona er körfuboltinn.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira