Íslenski boltinn

„Björn Daníel sagði mér að skjóta“

Dagur Lárusson skrifar
Kjartan Kári getur heldur betur skotið þegar sá gállinn er á honum.
Kjartan Kári getur heldur betur skotið þegar sá gállinn er á honum. Vísir/Anton Brink

Kjartan Kári Halldórsson, leikmaður FH, var sáttur í leikslok eftir að lið hans bar sigur úr býtum gegn ÍA í miklum baráttuleik í Bestu deild karla í fótbolta. Lokatölur í Akraneshöllinni 0-1.

„Við vissum að þeir myndu mæta í þennan leik alveg brjálaðir eins og þeir eru alltaf hérna. Mér fannst við mæta þeim í baráttunni og spila vel. Því fannst mér þetta sanngjarn sigur,“ sagði Kjartan Kári í viðtali að leik loknum.

„Þegar þú mætir upp á Skaga þá áttu von á alvöru baráttu. Þess vegna sagði Heimir við okkur að fyrst og fremst þyrftum við að mæta þeim í baráttunni og síðan gætum við farið að hugsa um spilamennskuna.“

Kjartan Kári skoraði ótrúlegt mark úr aukaspyrnu, langt utan af velli en hann segir að Björn Daníel hafi sagt honum að skjóta.

„Björn Daníel kom til mín og sagði að að það væri bara einn í vegg og ég ætti að skjóta og ég lét þess vegna bara vaða,“ endaði Kjartan Kári að segja. Um var að ræða hans annað mark af löngu færi í deildinni en hann skoraði einnig gegn KA. 

Eftir sigur dagsins er FH búið að vinna þrjá af fjórum leikjum sínum í Bestu deild karla á leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×