Innlent

Vitni gefur ekki upp nafn vegna ótta við hefndar­að­gerðir

Jón Þór Stefánsson skrifar
Enok hefur verið í sviðsljósinu undanfarið vegna þess að hann er kærasti og barnsfaðir Birgittu Lífar Björnsdóttur áhrifavalds.
Enok hefur verið í sviðsljósinu undanfarið vegna þess að hann er kærasti og barnsfaðir Birgittu Lífar Björnsdóttur áhrifavalds.

Maður, sem hefur stöðu brotaþola í sakamáli, þarf ekki að gefa upp nafn annars manns fyrir dómi. Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis.

Maðurinn sem fær að halda nafni sínu leyndu sendi brotaþolanum myndefni sem er á meðal sönnunargagna málsins.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er um er að ræða sakamál sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu höfðar á hendur Enoki Vatnari Jónssyni, sjó- og athafnamanni, og öðrum manni fyrir tvær grófar líkamsárásir.

Í úrskurðum dómstólanna segir að myndefnið sýni brotaþolann með áverka. Það var ekki ákæruvaldið sem lagði myndefnið fram heldur var það sjálfur brotaþolinn til stuðnings bótakröfu hans í málinu.

Þess var krafist af hálfu Enoks að brotaþolinn myndi gefa upp nafnið. Hann vildi meina að mikilvægt væri að það kæmi fram svo hann gæti tekið til varna, og jafnvel krafist þess að maðurinn yrði leiddur fyrir dóminn til skýrslugjafar.

Ákæruvaldið sagði svo ekki vera. Dómarinn gæti lagt mat á sönnunargagnið, sem og önnur sönnunargögn, án þess að nafnið kæmi fram. Þar að auki var því haldið fram að manninum, sem nýtur nafnleyndar, gæti stafað hætta af öðrum þeim sem ákærður er í málinu verði upplýst um nafnið.

Brotaþolinn neitaði að gefa upp nafnið en upplýsti dómara um það í trúnaði. Hann sagði dómaranum í héraðsdómi að hann hefði lofað manninum að upplýsa ekki um nafn hans. Þá sagðist hann hafa miklar áhyggjur af því að manninum gæti stafað hætta af öðrum sakborninganna vegna mögulegra hefndaraðgerða.

Héraðsdómaranum þótti rétt að virða skýringar brotaþola og sagði því ekki þörf á að nafnið yrði opinberað. Hann gæti lagt mat á myndefnið út frá fyrirliggjandi gögnum málsins. Hins vegar myndi ákæruvaldið þurfa að bera hallan af því við endanlegt sönnunarmat hvað varðar áreiðanleika sönnunargagnsins.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×