Skoðun

Ein­faldara fyrir­komu­lag til­vísana

Halla Signý Kristjánsdóttir skrifar

Í gær kom inn lítill og nett tilkynning inn á vef Stjórnarráðsins frá heilbrigðisráðuneytinu. Tilkynningin fjallar um að einfalda eigi tilvísanakerfi fyrir börn vegna heilbrigðisþjónustu. Það má með sanni segja að tilvísanakerfið hafi sætt nokkurri gagnrýni síðustu misseri, ekki síst frá læknum sem hafa talið það taka frá þeim dýrmætan tíma og valdi óþarfa skriffinnsku. Það verður ekki af hæstvirtum heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórssyni tekið að hann hlustar og gengur í verkin.

Núverandi kerfi

Nú hafa verið birt drög að reglugerðarbreytingum í Samráðsgátt. Samkvæmt gildandi reglugerð um tilvísanir fyrir börn er áskilið að heilsugæslulæknar skrifi tilvísun fyrir börn frá tveggja ára að 18 ára aldri, þurfi þau á þjónustu sérgreinalæknis að halda. Slík tilvísun er m.a. forsenda þess að þjónusta sérgreinalæknis sé gjaldfrjáls. Án tilvísunar þarf hins vegar að greiða fyrir þjónustuna sem nemur þriðjungi af því gjaldi sem sjúkratryggðir greiða almennt fyrir læknisheimsóknir. Gildistími tilvísunar er að hámarki eitt ár en heimilt er að ákveða að tilvísun fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun gildi í allt að 10 ár. Tilvísun heilsugæslulæknis er áskilin fyrir alla þjónustu sérgreinalækna. Þetta felur m.a. í sér að ef barn hefur fengið tilvísun til sérgreinalæknis sem telur barnið þurfa þjónustu læknis í annarri sérgrein þarf að leita aftur til heilsugæslulæknis eftir tilvísun. Þetta kerfi verður nú einfaldað til muna.

Góðar breytingar

Eftir reglugerðarbreytingar getur sérgreinalæknir sem fær til sín barn samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis vísað því sjálfur til læknis í annarri sérgrein telji hann þörf á því, án aðkomu heilsugæslunnar. Þá getur læknir sem fær barn til meðhöndlunar á sjúkrahúsi vísað barni til sérfræðings telji hann þörf á því. Auk þessa verður gildistími tilvísana fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun sem nú er 10 ár lengdur og getur gilt allt þar til barn nær 18 ára aldri. Þá verður hjúkrunarfræðingum veitt heimild til að gera tilvísanir fyrir börn vegna þjónustu talmeinafræðinga en hingað til hafa aðeins heilsugæslulæknar getað vísað börnum í þjónustu þeirra. Fleiri góðar breytingar er að finna í reglugerðardrögunum en þær miða allar að því að bæta þjónustu og auka skilvirkni, meðal annars með áherslu á að tími lækna nýtist betur til að sinna beinni þjónustu við sjúklinga.

Með þessum breytingum er ekki bara verið að stytta bið barna eftir mikilvægri þjónustu heldur einnig verið að bæta starfsumhverfi lækna sem kallað hefur verið eftir. Þessar breytingar eru einn hluti af þeirri vegferð að bæta þjónustu og auka skilvirkni, meðal annars með áherslu á að tími lækna nýtist betur til að sinna beinni þjónustu við sjúklinga. Vel gert!

Höfundur er þingmaður Framsóknar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×