Vara­mark­maðurinn og Håland hetjurnar: Man City á toppinn fyrir loka­um­ferðina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stefan Ortega spilaði tæpan hálftíma í kvöld en hafði í nægu að snúast.
Stefan Ortega spilaði tæpan hálftíma í kvöld en hafði í nægu að snúast. Justin Setterfield/Getty Images

Englandsmeistarar Manchester City verða á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar lokaumferð deildarinnar fer fram þökk sé 2-0 sigri liðsins á Tottenham Hotspur í kvöld. 

Norðmaðurinn Erling Braut Håland skoraði bæði mörk Man City en varamarkvörðurinn Stefan Ortega kom inn af bekknum um miðjan síðari hálfleik og átti sannkallaðn stórleik. Fyrir leik var ljóst að Man City þyrfti sigur til að hirða toppsætið af Arsenal en liðið hafði þó ekki unnið Tottenham í síðustu fjórum leikjum liðanna í Lundúnum. 

Það kom því lítið á óvart þegar fyrri hálfleik lauk án þess að liðin hefðu skorað en gestirnir voru aðgangsharðari. Guglielmo Vicario varði frábærlega frá Phil Foden og þá bjargaði Radu Drăgușin svo gott sem á línu eftir að skot Håland var varið af samherja hans og boltinn féll til Bernardo Silva. 

Sá portúgalski smellti boltanum í fyrsta í átt að marki og stefndi hann í hornið fjær ef ekki hefði verið fyrir höfuðið á Drăgușin. Staðan markalaus í hálfleik en snemma í síðari hálfleik komust gestirnir yfir.  Að sjálfsögðu var það Håland sem var þarna að eiga sitt fyrsta skot í leiknum en hann renndi boltanum yfir línuna eftir undirbúning Kevin de Bruyne.

Leikurinn var áfram heldur lokaður og gekk báðum liðum illa að skapa sér opin marktækifæri. Það var stuttu eftir miðbik síðari hálfleiks sem Cristian Romero, miðvörður Tottenham, keyrði inn í Ederson, markvörð Man City, með þeim afleiðingum að markvörðurinn þurfti að fara af velli. 

Eitthvað sem hann var alls ekki sáttur með og lét hann vatnsbrúsa liðsins finna fyrir því þegar hann kom á varamannabekkinn. Skömmu síðar fékk varamaðurinn Dejan Kulusevski besta færi gestanna til þessa í leiknum en Stefan Ortega, varamarkvörður Man City, varði vel í markinu.

Ortega var þó ekki búinn en á 85. mínútu slapp Heung-Min Son í gegnum vörn gestanna eftir að Manuel Akanji rann á miðjum vellinum. Ortega stóð keikur og las Son líkt og foreldar þínir lásu blaðið hér forðum daga með morgunkaffinu.

Staðan enn 1-0 Man City í vil þökk sé ótrúlegri innkomu Ortega. Það var svo í uppbótartíma sem Pedro Porro braut á Jérémy Doku innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Håland fór á punktinn og gulltryggði sigur gestanna. Lokatölur á Tottenham-vellinum 0-2 og Manchester City á toppnum fyrir lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Þegar ein umferð er eftir af ensku úrvalsdeildinni er Man City á toppnum með 88 stig en Arsenal er í 2. sæti með 86 stig. Man City fær West Ham United í heimsókn í lokaumferðinni á meðan Skytturnar taka á móti Everton.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira