Fótbolti

Stig tekið af Ás­dísi Karenu og fé­lögum hennar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásdís Karen Halldórsdóttir með ungum aðdáenda.
Ásdís Karen Halldórsdóttir með ungum aðdáenda. LSK Kvinner

Norska knattspyrnusambandið hefur dregið eitt stig af kvennaliði Lilleström vegna slæmrar fjárhagsstöðu félagsins.

Lilleström, eða LSK Kvinner eins og liðið er vanalega kallað í Noregi, hefur náð í tólf stig og er með markatöluna 12-7 eftir sjö fyrstu leikina á þessu tímabili. Liðið er með ellefu stig eftir þenann dóm.

Íslenska knattspyrnukonan Ásdís Karen Halldórsdóttir spilar með norska liðinu og hefur skorað eitt mark í fyrstu sjö leikjunum.

Lilleström sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem kom fram að stigið væri tekið af liðinu vegna slæmrar fjárhagsstöðu þess 31. desember 2023.

Forráðamenn Lilleström hafa fjórtán daga til að áfrýja dómnum.

„LSK Kvinner er í krefjandi fjárhagsstöðu en við höldum áfram að vinna hörðum höndum að því að laga hana. Við snúum við öllum steinum til að tryggja það að rekstur félagsins verði sjálfbær á komandi árum,“ sagði í fyrrnefndri fréttatilkynningu.

Fréttir bárust af því í síðasta mánuði að slæm fjárhagsstaða ógnaði hreinlega tilveru félagsins. Félagið hefur þegar gripið til aðgerða, sagt upp starfsfólki og fækkað æfingatímum í LSK höllinni, svo eitthvað sé nefnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×