Enski boltinn

Sagði sína menn hafa þurft að þjást og hrósaði vara­mark­verðinum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pep Guardiola hrósaði Stefan Ortega í hástert.
Pep Guardiola hrósaði Stefan Ortega í hástert. Justin Setterfield/Getty Images

„Það eru miklar tilfinningar til staðar í svona leikjum og því getur maður oft ekki spilað sinn besta leik,“ sagði Pep Guardiola, þjálfari Englandsmeistara Manchester City, eftir 2-0 sigur liðsins á Tottenham Hotspur í kvöld. Sá sigur skilar liðinu á topp deildarinnar þegar ein umferð er eftir af tímabilinu.

Varðandi spennustigið þá sagði Pep að ákafi mótherjans spilaði inn í sem og gæðin sem þeir kæmu með. Tottenham hafði einnig að öllu að keppa en liðið þurfti sigur til að halda draumi sínum um að spila í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð á lífi. Það gekk ekki og Aston Villa er komið aftur í deild þeirra bestu eftir langa bið.

„Þeir eru með frábært lið. Líkamlega sterkir, spila af miklum ákafa, vel þjálfaðir, góðir með og án bolta,“ sagði Pep um lið Tottenham og hélt áfram.

„Við vissum að þetta yrði erfiður leikur en við héldum haus á erfiðum augnablikum og markverðirnir okkar gerðu sitt. Á endanum þá refsuðum við þeim á réttu augnabliki.“

Stefan Ortega kom inn af bekknum þegar Ederson meiddist um miðjan síðari hálfleik og átti einfaldlega stórlek í markinu. Hann varði til að mynda meistaralega þegar Son Heung-min slapp einn í gegn.

„Hann hefur gert þetta síðan hann kom fyrst til okkar. Við höfum séð gæðin sem hann býr yfir. Hann hefur svo oft átt ótrúlegar markvörslur. Spurs er svo fljótt fram á við með Dejan Kulusevski, James Maddison, Son, Ben Johnson ásamt Pedro Porro og Pape Sarr. Þeir búa yfir gríðarlega mörgum vopnum.“

„Við vissum að við þyrftum að þjást en það gefur okkur líf að fá að spila einn leik til viðbótar á heimavelli á sunnudaginn.“

Man City mætir West Ham United á sunnudaginn kemur. Pep segir ekkert nema sigur koma til greina og að leikmenn séu alls ekki byrjaðir að fagna.

„Leikmenn vita að þetta er ekki búið, fagnaðarlætin eru ekki hafin. Við erum glaðir og okkur er létt því við vildum vera á toppnum fyrir lokaumferðina. Við vitum að við höfum verk að vinna og stuðningsfólkið mun styðja við okkur. Við þurfum að undirbúa okkur vel, einbeita okkur og gera okkar besta,“ sagði Pep að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×