Enski boltinn

United í­hugar að ráða stjóra Ipswich sem eftir­mann Ten Hags

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kieran McKenna fagnar eftir að Ipswich Town tryggði sér sæti í ensku úrvalsdeildinni.
Kieran McKenna fagnar eftir að Ipswich Town tryggði sér sæti í ensku úrvalsdeildinni. getty/Zac Goodwin

Manchester United íhugar að ráða Kieran McKenna, knattspyrnustjóra Ipswich Town, í sumar.

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Eriks ten Hag hjá United en hann þykir sitja í afar heitu sæti eftir slæmt gengi að undanförnu.

Ýmsir stjórar hafa verið orðaðir við United, nú síðast McKenna sem hefur komið Ipswich upp um tvær deildir á jafn mörgum árum.

McKenna þekkir vel til hjá United en hann starfaði hjá félaginu í sex ár, áður hann hann tók við Ipswich í desember 2021.

Breskir fjölmiðlar greina frá því að forráðamenn United hafi nú þegar sett sig í samband við McKenna sem er samningsbundinn Ipswich til 2027.

Undir stjórn McKennas tryggði Ipswich sér sæti í ensku úrvalsdeildinni á dögunum, í fyrsta sinn frá 2002. Liðið endaði í 2. sæti ensku B-deildarinnar, þrátt fyrir að vera nýliðar.

United mætir Newcastle United á Old Trafford í næstsíðasta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. United sækir svo Brighton heim á sunnudaginn og laugardaginn 25. maí er svo komið að úrslitaleik ensku bikarkeppninnar þar sem liðið mætir Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×