Erlent

Stað­festir flokkun AfD sem öfga­sam­taka

Kjartan Kjartansson skrifar
Hakakross nasista og skammstöfun hægriöfgaflokksins AfD sem spellvirkjar krotuðu á kosningaauglýsingu Jafnaðarmannaflokks Olafs Scholz kanslara í Cottbus í Austur-Þýskalandi.
Hakakross nasista og skammstöfun hægriöfgaflokksins AfD sem spellvirkjar krotuðu á kosningaauglýsingu Jafnaðarmannaflokks Olafs Scholz kanslara í Cottbus í Austur-Þýskalandi. Vísir/EPA

Þýskur dómstóll staðfesti flokkun hægrijaðarflokksins Valkosts fyrir Þýskaland (AfD) sem mögulegra hættulegra öfgasamtaka. Niðurstaðan þýðir að lögregla hefur rétt til þess að fylgjast með flokknum með hlerunum og uppljóstrurum.

Dómarar við stjórnsýsludómstól í Münster töldu nægar sannanir fyrir því að pólitísk markmið AfD stangist á við mannlega reisn ákveðinna þjóðfélagshópa og lýðræðið. Flokkun hans sem mögulega hættulegra öfgasamtaka væri því hæfileg og samræmdist bæði innlendum og evrópskum lögum.

„Það er tilefni til þess að gruna að minnsta kosti hluti flokksins vilji skipa þýskum borgurum af erlendum bakgrunni í annan flokk,“ skrifuðu dómararnir þegar þeir staðfestu niðurstöðu lægra dómstigs frá 2022, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

AfD hefur vaxið ásmegin á undanförnum árum og gæti jafnvel unnið sigra í nokkrum sambandslandskosningum í austanverðu Þýskalandi á þessu ári. Flokksmenn hafa ítrekað látið rasísk ummæli falla en undanfarið hefur flokkurinn einnig verið sakaður um að vera skálkaskjól fyrir njósnara Rússlands og Kína.

Þannig var starfsmaður Evrópuþingsmanns AfD handtekinn, grunaður um njósna um störf þingsins og kínverska andófsmenn í Þýskalandi fyrir kínverska kommúnistaflokkinn.

Aukin harka hefur færst í þýsk stjórnmál upp á síðkastið. Ítrekað hefur verið veist að stjórnmálamönnum og starfsmönnum flokka á allra síðustu dögum og vikum. Alvarlegasta árásin var á Evrópuþingmann Jafnaðarmannaflokks (SDP) Olafs Scholz kanslara í Dresen í byrjun mánaðar. Hann þurfti að gangast undir skurðaðgerð eftir að hann var barinn úti á götu þegar hann var að hengja upp kosningaveggspjöld.


Tengdar fréttir

Hrina á­rása á þýska stjórn­­mála­­menn veldur á­hyggjum

Ráðist var á hátt settan félaga í stjórnarflokki Olafs Scholz, kanslara Þýskalands, í Berlín í gær. Aðeins nokkrir dagar eru frá því að annar flokksmaður þurfti að gangast undir aðgerð eftir að menn réðust á hann með spörkum og barsmíðum. Hrina árása á stjórnmálamenn hefur verið tengd við uppgang öfgahægrihyggju.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×