Innlent

Telur ekki við­eig­andi að tjá sig um mál Maríu Sig­rúnar

Jón Þór Stefánsson skrifar
„Mér finnst þetta tengjast ritstjórnarlegu sjálfstæði Ríkisútvarpsins og ég tel að það sé ekki við hæfi að ráðherra málaflokksins fara að blanda sér í umræðu um dagskrárgerð eða ritstjórn fréttastofu RÚV,“ sagði Lilja.
„Mér finnst þetta tengjast ritstjórnarlegu sjálfstæði Ríkisútvarpsins og ég tel að það sé ekki við hæfi að ráðherra málaflokksins fara að blanda sér í umræðu um dagskrárgerð eða ritstjórn fréttastofu RÚV,“ sagði Lilja.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Menningar- og viðskiptaráðherra, vildi ekki tjá sig um „svokallað Kveiksmál“ sem hefur verið til mikillar umræðu síðustu daga. Að hennar mati er ekki viðeigandi fyrir ráðherra að blanda sér í umræðu um dagskrárgerð eða ritstjórn fréttastofu RÚV.

Í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag spurði Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, út í það sem hún kallaði „furðumál“ Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur fréttakonu.

„Hún var látin fara úr fréttaskýringaþætti RÚV þegar hún vann að innslagi um meinta gjafagjörninga Reykjavíkurborgar til olíufélaga. Eftir nokkurt þref og mikinn þrýsting sem auðvitað skapaðist við afhjúpun Maríu var fréttaskýring hennar loks spillt því að öðrum þætti á RÚV. Umfjöllunin var sláandi og landsmenn eiga auðvitað heimtingu á að fá að sjá hvernig var staðið að þessum samningum,“ sagði Diljá.

„Ríkisútvarpið er auðvitað þjóðarmiðill. Það er lögbundið að miðlun hans byggist á fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu og það var bara mjög miður að sjá aðdragandann að þessu máli í Ríkisútvarpinu.”

Diljá óskaði eftir að fá að heyra skoðun ráðherra málaflokksins á málinu. Hún bað sérstaklega um svar við því hvort málið hefði skaðað trúverðugleika RÚV

Í ræðu sinni sagði Lilja þó að henni þætti það ekki tilhlýðilegt að hún færi að tjá sig um mál sem tengjast ritstjórnarlegu sjálfstæði Ríkisútvarpsins með þessum hætti.

„Mér finnst þetta tengjast ritstjórnarlegu sjálfstæði Ríkisútvarpsins og ég tel að það sé ekki við hæfi að ráðherra málaflokksins fara að blanda sér í umræðu um dagskrárgerð eða ritstjórn fréttastofu RÚV,“ sagði Lilja sem minntist á að traust til RÚV mældist býsna hátt.

RÚV var til frekari umræðu á Alþingi í dag. Lilja var líka spurð út í kynhlutlausa íslensku sem hefur verið áberandi hjá RÚV. Lesa má um það nánar hér.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×