Innlent

Íslendingar meti varnarþörf sína

Lettneskir hermenn á götu í Ríga í morgun, en mikill viðbúnaður er´í borginni vegna leiðtogafundarins.
Lettneskir hermenn á götu í Ríga í morgun, en mikill viðbúnaður er´í borginni vegna leiðtogafundarins. MYND/AP

Varnarmálaráðherra Noregs segir eigið mat Íslendinga á varnarþörf þeirra og sanngjarna skiptingu kostnaðar forsendu varnarsamstarfs ríkjanna. Óformlegar viðræður um varnir Íslands fara að öllum líkindum fram á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem hófst í dag í Lettlandi.

Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins hófst á hádegi í Ríga, höfuðborg Lettlands, en hann sitja pólitískir leiðtogar aðildarríkjanna 26. Verkefni NATO í Afganistan verða án efa efst á baugi en 32.000 hermenn á vegum bandalagsins standa þar í ströngu.

Á sérstöku málþingi í morgun kvaðst Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri sambandsins, fullviss um að NATO myndi ná markmiðum sínum í Afganistan og sagði að aðildarríkin mættu ekki missa móðinn.

Á fundinum munu þau Geir H. Haarde forsætisráðherra og Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra ræða á óformlegum nótum við starfsystkin sín í nágrannalöndunum um varnarsamstarf. Lofthelgiseftirlit á borð við það sem NATO hefur séð um fyrir Eystralandslöndin er talið sérlega þýðingarmikið. Hefur einkum verið horft til Norðmanna í því sambandi enda stendur til að halda formlegar viðræður á milli Íslands og Noregs um samstarf í öryggismálum í næsta mánuði.

Anne-Grete Ström-Erichsen, varnarmálaráðherra Noregs, segir í viðtali við Fréttablaðið í dag að forsenda þess að slíkt samstarf geti komist á sé að fyrir liggi trúverðugt mat á vörnum Íslands og íslensk stjórnvöld verði að hafa frumkvæði að þeirri vinnu. Þegar niðurstaðan liggi fyrir hvernig Norðmenn og önnur aðildarríki NATO geti aðstoðað Íslendinga í öryggismálum þurfi að ræða um skiptingu kostnaðar á fyrirkomulaginu þar sem sjóðir norska hersins eru takmarkaðir.

Íslensk stjórnvöld eru raunar þegar farin að bregðast við þessu kalli því um helgina auglýsti dóms- og kirkjumálaráðuneytið stöðu sérfræðings í öryggis- og varnarmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×