Enski boltinn

23 ára og búinn að vinna deildina oftar en Rooney, Agüero og Terry

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Foden lyfti enska meistaratitlinum í sjötta sinn á sjö ára ferli sínum með Manchester City.
Phil Foden lyfti enska meistaratitlinum í sjötta sinn á sjö ára ferli sínum með Manchester City. AP/Dave Thompson

Phil Foden kórónaði stórkostlegt tímabil sitt í gær með tveimur mörkum í lokaleik Manchester City á móti West Ham. Mörkin tryggðu liðinu 3-1 sigur og enska meistaratitilinn fjórða árið í röð.

Foden átti magnað tímabil, skoraði nítján deildarmörk og gaf 8 stoðsendingar. Hann var með 11 mörk og 5 stoðsendingar tímabilið í fyrra og 9 mörk og 5 stoðsendingar tvö tímabil þar á undan.

Þessi 23 ára gamli leikmaður er orðinn algjör lykilmaður í besta liði Englands og hann á vissulega mjög mörg ár eftir.

Það sem er merkilegt við feril Foden er að hann hefur spilað með aðalliði City frá og með 2017-18 tímabilinu. Það þýðir að strákurinn var í gær að vinna sinn sjötta Englandsmeistaratitil á ferlinum.

Sex Englandsmeistaratitlar er meira en bæði Wayne Rooney,  Sergio Agüero og John Terry, þrír af sigursælustu leikmönnum deildarinnar, unnu á sínum tíma.

Rooney vann deildina fimm sinnum með Manchester United eða tímabilin 2006–07, 2007–08, 2008–09, 2010–11 og 2012–13.

Terry vann deildina fimm sinnum með Chelsea eða tímabilin 2004–05, 2005–06, 2009–10, 2014–15 og 2016–17.

Agüero vann deildina fimm sinnum með Manchester City eða tímabilin 2011–12, 2013–14, 2017–18, 2018–19 og 2020–21.

Foden á enn svolítið í land að jafna met Ryan Giggs sem vann ensku deildina þrettán sinnum með Manchester United. Þegar Giggs var 23 ára gamall, tímabilið 1996 til 1997, þá var hann aftur á móti aðeins að vinna ensku deildina í fjórða skiptið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×