Fótbolti

Barcelona þarf tæp­lega tuttugu milljarða fyrir lok júní­mánaðar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mögulega verður einhver af þessum seldur fyrir 30. júní.
Mögulega verður einhver af þessum seldur fyrir 30. júní. EPA-EFE/Alejandro Garcia

Barcelona þarf að fá tæplega tuttugu milljarða íslenskra króna í kassann fyrir 30. júní ætli félagið sér að festa kaup á leikmönnum, eða skrá nýja leikmenn, í sumar.

Fjármál félagsins hafa verið til umfjöllunar undanfarin misseri eftir að félagið virtist vera við það að fara á hausinn. Voru ýmsar kanínur dregnar úr hattinum til að halda félaginu gangandi síðasta sumar og nú virðist þurfa slíkt hið sama á nýjan leik.

The Athletic hefur greint frá því að félagið sé með 130 milljón evra – rúm 20 milljarða íslenskra króna – holu í bókhaldi sínu sem þarf að fylla. Ástæðan er regluverk spænsku úrvalsdeildarinnar, La Liga. Ástæðan er sú að Barcelona er með alltof háan launakostnað miðað við tekjur.

Hluti af þeirri upphæð gæti komið í gegnum hina ýmsa samninga sem Börsungar hafa gert undanfarin misseri en til að komast á slétt stefnir í að félagið þurfi að selja leikmenn. Takist liðinu ekki að komast á slétt má það ekki skrá nýja leikmenn, sama hvort þeir komi á frjálsri sölu eða láni.

Sem stendur opnar félagaskiptaglugginn á Englandi 14. júní, sama dag og EM en enn á eftir að tilkynna hvenær glugginn á Spáni, Ítalíu, Frakklandi og Þýskalandi opnar. Gæti það haft áhrif á hversu vel félaginu mun ganga að safna þessum tuttugu milljörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×