Sport

Koddaslagur sjónvarpsstjörnu endaði með ó­sköpum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eins og sjá má voru meiðsli Lauru Woods býsna alvarleg.
Eins og sjá má voru meiðsli Lauru Woods býsna alvarleg. vísir/getty/instagram

Sjónvarpskonan vinsæla, Laura Woods, gat ekki unnið við bardaga Tysons Fury og Oleksandr Usyk í Sádi-Arabíu. Ástæðan eru meiðsli sem hún varð fyrir í fríi.

Woods var í fríi með kærasta sínum í síðustu viku þegar atvikið átti sér stað. Þau dvöldu í sumarbústað og svo virðist sem þau hafi ákveðið að fara í koddaslag. 

Í færslu á Instagram lýsti Woods því hvernig hún hefði sveiflað kodda og brotið lampa í leiðinni, með þeim afleiðingum að hún skarst í andliti og á höndum.

Woods birti myndir af sárum sínum á Instagram og þar sést meðal annars ljótur skurður sem hún fékk við augað. Að hennar sögn gróa sárin þó vel og hún vonast til að geta mætt aftur í vinnuna áður en langt um líður.

„Þetta var mikið áfall og ég hef verið leið en er um leið þakklát að ekki fór verr,“ skrifaði Woods á Instagram. „Ég er miður mín að geta ekki fjallað um bardagann í Ríad en óska hinu frábæra boxteymi TNT góðs gengis. Ég sný fljótlega aftur.“

Woods fer fyrir umfjöllun TNT um box og Meistaradeild Evrópu í fótbolta. Hún starfaði áður hjá talkSPORT og Sky Sports þar sem hún sá meðal annars um að fjalla um HM í pílukasti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×