Íslenski boltinn

Oliver með þrennu gegn gömlu fé­lögunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Oliver Heiðarsson var óstöðvandi gegn Þrótti.
Oliver Heiðarsson var óstöðvandi gegn Þrótti. vísir/anton

Oliver Heiðarsson skoraði þrennu þegar ÍBV sigraði Þrótt, 4-2, í Lengjudeild karla í fótbolta í kvöld. Þá vann Fjölnir Leikni, 1-0.

ÍBV tapaði fyrir Dalvík/Reyni, 3-1, í 1. umferð Lengjudeildarinnar á meðan Þróttur gerði 1-1 jafntefli við Þór.

Eyjamenn mættu ákveðnir til leiks í dag og voru komnir í 3-0 eftir 38 mínútur. Oliver skoraði tvö mörk og Sverrir Páll Hjaltested eitt. Kári Kristjánsson minnkaði muninn fyrir Þróttara á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Oliver skoraði þriðja mark sitt og fjórða mark heimamanna á 48. mínútu og eftir það var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda. Jörgen Pettersen minnkaði muninn fyrir gestina úr Laugardalnum þegar tvær mínútur voru eftir. Lokatölur 4-2, ÍBV í vil.

Fjölnir er með fullt hús stiga í Lengjudeildinni eftir 1-0 sigur á Leikni í Egilshöllinni.

Dagur Ingi Axelsson skoraði eina mark leiksins á 28. mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti Axels Freys Harðarsonar sem Viktor Freyr Sigurðsson, markvörður Leiknis, varði.

Leiknir hefur tapað báðum leikjum sínum það sem af er tímabili.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×