Upp­gjörið: Valur - KA 3-1 | Vítaklúður Gylfa kom ekki að sök

Ólafur Þór Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson misnotaði víti í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson misnotaði víti í kvöld. vísir/Hulda Margrét

Valur vann sinn annan sigur í röð í Bestu-deild karla er liðið lagði KA á heimavelli, 3-1. Gylfi Þór Sigurðsson misnotaði vítaspyrnu í fyrri hálfleik, en það kom ekki að sök.

Fyrri hálfleikur var tíðindamikill og góð skemmtun. Valur réð lögum og lofum í leiknum í upphafi. Það skóp mark strax á fjórðu mínútu þegar Hólmar Örn Eyjólfsson skoraði mark eftir aukaspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar. Smá heppnisstimpill yfir skalla Hólmars sem virðist fá boltann í sig en ekkert tekið af honum að harðfylgnin skapaði markið.

KA unnu sig hægt og rólega inní leikinn en Valur hefði hæglega getað skorað fleiri mörk í upphafi leiks. Eftir 25 mínútur var leikurinn í meira jafnvægi og KA skapaði sér fín færi. Það endaði á því að KA fékk víti á 40. mínútu þegar Sveinn Margeir féll í teignum eftir viðskipti við Patrik Pedersen. Á punktinn fór Hallgrímur Mar Steingrímsson sem skoraði af gríðarlegu öryggi úr vítinu.

Valur fékk víti einhverum þrjátíu sekúndum síðar þegar Hrannar Björn braut klaufalega á Aroni Jó inní teignum. Á punktinn steig Gylfi Þór Sigurðsson en Steinþór Már Auðunsson markmaður KA gerði sér lítið fyrir og varði vel. Ótrúlegar mínútur.

Liðin héldu í hálfleik jöfn, 1-1. Valsarar líklega súrir eftir yfirburðina í upphafi leiks en KA gátu verið sáttir við hvernig þeir unnu sig inn í leikinn.

Valur komst aftur yfir á 56. mínútu þegar Gylfi Þór á fast skot langt utan af velli sem fer í stöngina. Boltinn hrekkur út á kantinn til Lúkasar Loga sem á frábæra fyrirgjöf á Patrik Pedersen sem stýrir boltanum í netið.

Heimamenn bættu í forystuna á 63. mínútu þegar Valur spilar sig upp allan völlinn sem endar á því að Jónatan Ingi nær fyrirgjöf inní teiginn þar sem Patrik Pedersen er aleinn og óvaldaður og getur stýrt boltanum í opið markið, 3-1.

Niðurstaða leiksins því 3-1 sannfærandi sigur Vals. Valur voru heilt yfir mun betri aðilinn í leiknum. Gestirnir átti nokkra mjög góða kafla en þeir voru bara alltof stuttir.

Valur nær þar með í annan sigur sinn í röð og ljóst að liðið er að finna taktinn. KA er enn á leit að sigri eftir þessa sex leiki og eru einungis með tvö stig í næst síðasta sæti deildarinnar.

Atvik leiksins

Mínútur 40 til 43 í leiknum voru hreint ótrúlegar. Tvö víti og það seinna var varið. Víti KA var mögulega ódýrt en Hallgrímur skoraði örugglega. Valsarar fara hratt fram, Aron Jó fíflar vörn KA sem endar á því að Hrannar Björn brýtur mjög klaufalega á honum. Vítið frá Gylfa var varið líkt og lýst er hér að ofan. Mikilvægt fyrir KA á þessum tímapunkti, í stað þess að fara í hálfleikinn undir gátu KA menn andað léttar í hálfleiknum. Það virtist þó ekki hjálpa þeim í seinni hálfleik.

Stjörnur og skúrkar

Patrik Pedersen er að sjálfsögðu stjarna kvöldsins. Hann skorar tvö mörk sem skilur liðin af og ógnaði ítrekað með krafti sínum. Lúkas Logi heillaði undirritaðan einni, var mikið í boltanum og skapaði alltaf eitthvað.

Steinþór Már Auðunsson varði víti á 43. mínútu leiksins og hélt KA þar með í leiknum. Einnig greip hann vel inní og var öruggur í sínum aðgerðum.

Miðja KA lenti algjörlega undir í baráttu sinni í dag. Það kom lítið útúr uppspili KA á miðjunni, þeir Rodri og Daníel áttu í vandræðum að skapa eitthvað. Á sama tíma og þeim tókst illa að stöðva uppspil Vals sem gátu nánast gert það sem þeir vildu á miðsvæðinu.

Dómarinn

Helgi Mikael átti heilt yfir fínan dag. Langflestar stóru ákvarðanirnar voru réttar og hann hafði góða stjórn á leiknum. Vítið sem KA fékk í fyrri hálfleik var þó líklega frekar ódýrt. Einkunn í dag er 7/10.

Stemning og umgjörð

Í dag voru 1277 áhorfendur á N1 vellinum að Hlíðarenda og mjög flott stemmning. Sérstaklega ber að nefna mætingu gestanna frá Akureyri sem var til hreinnar fyrirmyndar. Umgjörð Vals var svo að vanda framúrskarandi. Vel staðið að öllu og leikdagsupplifunin er mikil.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira