Fótbolti

Ísak lagði upp mark í fyrsta byrjunar­liðs­leiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísak Andri Sigurgeirsson gaf stoðsendingu gegn Brommapojkarna í dag.
Ísak Andri Sigurgeirsson gaf stoðsendingu gegn Brommapojkarna í dag. Vísir/Hulda Margrét

Ísak Andri Sigurgeirsson lék sinn fyrsta leik í byrjunarliði Norrköping á tímabilinu þegar liðið mætti Brommapojkarna í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Ísak nýtti tækifærið sitt vel og lagði upp mark Norrköping sem tapaði leiknum, 2-1. Liðið er án sigurs í síðustu fjórum leikjum og er í 13. sæti deildarinnar með ellefu stig eftir tíu leiki.

Arnór Ingvi Traustason var á sínum stað í byrjunarliði Norrköping og Ísak fékk einnig tækifæri í dag.

Nikola Vasic kom Brommapojkarna yfir strax á 5. mínútu en Christoffer Nyman jafnaði fyrir Norrköping tuttugu mínútum síðar, eftir undirbúnings Ísaks.

Vasic skoraði svo annað mark sitt í uppbótartíma fyrri hálfleiks og það réði úrslitum. Lokatölur 2-1, heimamönnum í vil. Ísak og Arnór Ingvi voru báðir teknir af velli í seinni hálfleik.

Ísak kom til Norrköping frá Stjörnunni síðasta sumar. Þá lék hann ellefu deildarleiki með liðinu; skoraði þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar. Á þessu tímabili hefur hann skorað eitt og lagt upp annað í fimm deildarleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×