Körfubolti

Jamil mun stýra Val í Subway-deild kvenna á næstu leik­tíð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þjálfarateymi Vals í Subway-deild kvenna á komandi leiktíð.
Þjálfarateymi Vals í Subway-deild kvenna á komandi leiktíð. Valur

Valur hefur ráðið Jamil Abiad sem aðalþjálfara meistaraflokks kvenna í körfubolta fyrir komandi tímabil. Mun hann því stýra liðinu í Subway-deild kvenna ásamt því að aðstoða Finn Frey Stefánsson með karlalið félagsins.

Frá þessu er greint á samfélagsmiðlum Vals. Þar segir að Margrét Ósk Einarsdóttir verði Jamil til aðstoðar ásamt því að starfa áfram með yngri flokkum félagsins. Hjalti Þór Vilhjálmsson stýrði liðinu á nýafstaðinni leiktíð en hvergi kemur fram á miðlum Vals að hann hafi látið af störfum. Eftir tíðindi dagsins má þó reikna með því.

„Ég er mjög spenntur að fá þetta tækifæri og að vinna með Möggu. Mér líður eins og heima hjá mér í Val og það er frábært að fá að halda hér áfram og fá að vinna með stelpunum sem hafa undanfarin ár verið flaggskip körfunnar í Val,“ sagði Jamil við undirritun samningsins.

„Spennandi að stíga þetta skref í þjálfun, sérstaklega uppeldisfélagi mínu og frábært tækifæri að fá að vinna með góðum þjálfara eins og Jamil,“ segir aðstoðarþjálfarinn Margrét Ósk í tilkynningu Vals.

Valur varð Íslandsmeistari á síðasta ári en liðið var hvergi nærri að verja titil sinn á þessari leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×