Skoðun

Hégómastefna

Inga María Hlíðar Thorsteinson skrifar
Ímyndaðu þér að þú sért í í verkfalli. Þú átt ekki að mæta í vinnuna á þriðju-, miðviku- og fimmtudögum og því skerðast laun þín um 3 daga á viku eins lengi og verkfallið stendur. Ímyndaðu þér nú að þú sért ekki í 9-17 vinnu heldur í 100% vaktavinnu. Þú vinnur um kvöld og helgar, á nóttunni og á daginn. Það vill svo til að nær engin af þessum vöktum þínum hittir á þriðju-, miðviku- eða fimmtudag svo þú nærð nánast að uppfylla 100% vinnuskyldu. En þú færð samt bara greitt fyrir tvo daga í viku eins og í fyrra dæminu vegna þess að ríkið sér ekki sóma sinn í að greiða þér og kynsystrum þínum laun fyrir unna vinnu.

Verkfall ljósmæðra

Í byrjun apríl 2015 fóru ljósmæður á Landspítalanum í ótímabundið verkfall sem átti að standa í lotum alla þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga þar til samningar næðust. Samningar náðust þó ekki heldur samþykkti Alþingi lög á verkfallið í júní 2015 og vísaði kjaradeilunni í gerðardóm. Þar sem ljósmæður á Landspítalanum vinna vaktavinnu sem dreifist á alla daga vikunnar hittu vaktir sumra aðeins að litlum hluta á þá daga sem verkfallinu stóð, þrátt fyrir að þær vaktir hafi verið mannaðar með svokallaðri „neyðarmönnun“ þessa daga. Þannig uppfylltu nokkrar ljósmæður nánast fulla vinnuskyldu þrátt fyrir verkfallsaðgerðirnar. Ríkið ákvað samt sem áður að skerða laun þeirra og var fjöldi verkfallsdaga dreginn hlutfallslega frá mánaðarlegri vinnuskyldu á meðan verkfallinu stóð. Ekki var tekið tillit til raunverulegs vinnuframlags heldur hlutu allir félagsmenn Ljósmæðrafélagsins sem störfuðu á spítalanum sömu skerðingu.

Í svari Bjarna Benediktssonar, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Jóns Þórs Ólafssonar þingmanns kemur fram að þar sem Ljósmæðrafélag Íslands ákvað að efna til verkfalls og nýta sér heimild félagsmanna til að leggja niður vinnu, gildi sú meginregla að laun fáist ekki greidd fyrir þann tíma sem starfsmenn eru í verkfalli þar sem starfsmenn inna ekki af hendi vinnuskyldu sína. En í þessu tilviki inntu þessar fimm ljósmæður af hendi nær fulla vinnuskyldu, þrátt fyrir að aðrar ljósmæður hafi hins vegar ekki þurft að gera það. Hefðu þessar fimm ljósmæður átt að neita að mæta í vinnuna, utan þeirra daga sem verkfallsaðgerðirnar náðu til? Svarið er nei. Þá hefðu þær án efa hlotið ennþá meiri tekjuskerðingu fyrir vikið.

Héraðsdómur dæmdi ljósmæðrum í vil

Í sumar komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að ríkinu hafi verið óheimilt að skerða laun fimm ljósmæðra, sem störfuðu á Landspítalanum á því tímabili sem verkfallsaðgerðirnar stóðu yfir. Í niðurstöðu dómsins segir m.a.: „Störfin hafa verið unnin, vinnutímarnir inntir af hendi og fyrir það á að greiða laun“. Nú telur núverandi fjármála- og efnahagsráðherra hins vegar brýnt að dómur Héraðsdóms sæti endurskoðun og vill vísa málinu áfram í Hæstarétt. Það er í raun fjarstæðukennt í ljósi þeirrar áherslu sem Viðreisn hefur lagt á jafnrétti á vinnumarkaði að formaður flokksins telji brýnt að ljósmæðrum verði ekki greidd laun fyrir vinnu sem þær unnu. Hér er um mestu kvennastétt landsins að ræða.

Það er afskaplega auðvelt að leggja fram stefnu sem hljómar vel í eyrum kjósenda. Það er hins vegar erfiðara að hafa kjark til þess að framfylgja slíkri stefnu. Í því ljósi skora ég á fjármála- og efnahagsráðherra til þess að draga kröfu sína um endurskoðun dómsins til baka og á Hæstarétt til að fella niður kröfu hans um endurskoðun.

 

Fyrir hönd verðandi ljósmæðra,

Inga María Hlíðar Thorsteinson

Höfundur er ljósmóðurnemi.




Skoðun

Sjá meira


×