Enski boltinn

Ten Hag: Þeir töfðu allan leikinn og voru verð­launaðir fyrir það

Smári Jökull Jónsson skrifar
Erik Ten Hag þakkar dómaranum Stuart Attwell fyrir leikinn í dag.
Erik Ten Hag þakkar dómaranum Stuart Attwell fyrir leikinn í dag. Vísir/Getty

Erik Ten Hag knattspyrnustjóri Manchester United hrósaði karakter sinna manna eftir 3-2 sigurinn á Nottingham Forest í dag. United lenti 2-0 undir á fyrstu fjórum mínútum leiksins en kom til baka og tryggði sér þrjú dýrmæt stig.

„Hræðileg byrjun en karakter liðsins var frábær. Við héldum ró okkar og vorum svo yfirvegaðir. Við héldum trú á skipulaginu, spiluðum góðan fótbolta og skoruðum þrjú mörk. Þetta var frábær endurkoma,“ sagði Ten Hag í viðtali við BBC eftir leikinn í dag.

„Með fullri virðingu fyrir Forest þá getum við ekki leyft þeim að skora svona mörk. Þetta voru auðveld gjafamörk. Þetta er brjálæði en stundum geta leikir farið svona. Eins og ég sagði, við héldum ró okkar.“

Í ljósi þess að United tapaði í síðustu umferð gegn Tottenham var mikilvægt fyrir liðið að koma til baka í dag. Ten Hag segir pláss fyrir bætingu hjá liðinu.

„Við höfum séð að þetta lið getur komið til baka. Ef þú átt svona byrjun þá þarftu að komast yfir það. Það er ekki auðvelt en hrós á liðið mitt.“

„Við erum með persónuleikann. Við getum klárlega bætt okkur á ákveðnum sviðum. En almennt séð er þetta lið með karakterinn til að koma til baka í hvert skipti.

Ný regla um uppbótartíma í ensku deildinni hefur hlotið töluverða umfjöllun. Dómarar bæta mun meiri tíma við venjulegan leiktíma en áður og á Old Trafford í dag var ellefu mínútum bætt við síðari hálfleikinn.

„Þessi regla er ekki rétt. Þeir voru að tefja leikinn frá byrjun og voru verðlaunaðir fyrir það,“ sagði Ten Hag og vísaði þá til þess að Forest fékk tíma undir lokin til að reyna að jafna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×