Enski boltinn

Rekinn þrátt fyrir að vera til­nefndur sem þjálfari ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liam Rosenior fær ekki að halda áfram sem knattspyrnustjóri Hull City.
Liam Rosenior fær ekki að halda áfram sem knattspyrnustjóri Hull City. Getty/Mike Hewitt

Liam Rosenior var einn af þremur sem kom til greina sem þjálfari ársins í ensku b-deildinni. Í gær ákvað Hull City samt sem áður að reka hann úr starfi sínu aðeins nokkrum dögum eftir að tímabilinu lauk.

Rosenior kom til greina sem besti þjálfarinn á leiktíðinni ásamt þeim Daniel Farke hjá Leeds og Kieran McKenna hjá Ipswich. McKenna vann verðlaunin.

Hinn 39 ára gamli Rosenior var hins vegar rekinn í gær eftir skelfilegan endi á tímabilinu þar sem Hull vann aðeins einn af fjórum síðustu leikjum sínum. Liðið missti því af umspilinu um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Hull City endaði í sjöunda sæti þremur stigum á eftir Norwich sem var síðasta liðið inn í úrslitakeppnina.

Rosenior tók við Hull City í nóvember 2022 og í desember í fyrra fékk hann nýjan þriggja ára samning eftir að hafa bjargað liðinu frá falli. Liðið tók stakkaskiptum undir hans stjórn. Hann kláraði þó bara hálft ár af þeim samningi.

„Þetta er erfiðasta ákvörðunin sem ég hef þurft að taka sem stjórnarformaður félagsins. Ég verð að setja mínar eigin tilfinningar til hliðar og taka þá ákvörðun sem er best fyrir framtíð félagsins,“ sagði Acun Ilicali, tyrkneskur eignandi Hull City, í samtali við heimasíðu félagsins.

„Það er engin vafi á því að liðið sýndi framfarir undir stjórn Liam og hann verður alltaf hluti af Hull fjölskyldunni. Engu að síður þá er ljóst að framtíðarsýn okkar fyrir félagið var ólík og mér fannst kominn tími til að gera breytingu,“ sagði Ilicali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×