Viðskipti innlent

Ráðin að­stoðar­for­stjóri og fjár­mála­stjóri Si­dekick

Atli Ísleifsson skrifar
Linda Jónsdóttir starfaði um árabil hjá Marel.
Linda Jónsdóttir starfaði um árabil hjá Marel. Aðsend

Linda Jónsdóttir hefur verið ráðin í stöðu aðstoðarforstjóra og fjármálastjóra Sidekick Health.

Í tilkynningu segir að Linda hafi mikla alþjóðlega reynslu á sviði rekstrar og fjármála en hún hafi starfað hjá Marel í fimmtán ár, síðast sem framkvæmdastjóri rekstrar en þar áður lengst af sem fjármálastjóri félagsins. Félagið hafi á því tímabili klárað nokkrar yfirtökur og sameiningar, rúmlega þrefaldað tekjurnar og verið tvískráð á markað hér á landi og í Amsterdam.

„Linda hefur mikla reynslu af því að skala upp nýsköpunarfyrirtæki og hefur einnig setið í stjórn Framtakssjóðs Íslands, Viðskiptaráðs og Vísindagarða.

Linda er með Cand Oecon gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands auk meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskóla Reykjavíkur. Hún er gift Yngva Halldórssyni viðskiptafræðingi og eiga þau þrjú börn.

Linda mun áfram gegna stjórnarformennsku í Íslandsbanka samhliða störfum sínum hjá Sidekick en hún tók sæti í stjórn bankans síðastliðið sumar,“ segir í tilkynningunni. 

Læknarnir Tryggvi Þorgeirsson og Sæmundur Oddsson stofnuðu Sidekick Health árið 2014. Fyrirtækið þróar meðferðir til þess að bæta heilsu og líðan fólks með ýmsa langvinna sjúkdóma eins og offitu, sykursýki 2, krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma. Síðasta haust festi Sidekick Health kaup á þýska fyrirtækinu Aidhere GmbH sem er leiðandi í lyfseðilsskyldum heilbrigðistæknilausnum í Þýskalandi. Meðal fjárfesta í Sidekick Health eru Novator Partners, Frumtak Ventures, Wellington Partners og Asabys Partners.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×