Gagnrýni

Heimurinn að farast en maður tekur ekkert eftir því

Jónas Sen skrifar
Todmobile hélt upp á 35 ára afmæli í Eldborg í Hörpu laugardaginn 14. október. Ásamt Todmobile komu fram Midge Ure, Nik Kershaw og Tony Hadley. Sinfonia Nord lék undir stjórn Atla Örvarssonar.
Todmobile hélt upp á 35 ára afmæli í Eldborg í Hörpu laugardaginn 14. október. Ásamt Todmobile komu fram Midge Ure, Nik Kershaw og Tony Hadley. Sinfonia Nord lék undir stjórn Atla Örvarssonar. Jónas Sen

Í fyrstu kvikmyndinni um Tortímandann, með Arnold Schwarzenegger í aðalhlutverki, er atriði þar sem tónlist kemur við sögu. Ung kona með afskaplega hallærislega hárgreiðslu þess tíma, 1984, er að útbúa sér nætursnarl. Hún er í skýjunum eftir að hafa stundað villt kynlíf með kærasta sínum.

Í kassettutækinu sem hún hefur í eyrunum er dúndrandi danstónlist og hún dansar um eldhúsið í alsælu. Hún heyrir ekki að tortímandinn er í svefnherbeginu við hliðin og er að murka lífið úr kærastanum. Svo fer hún sömu leið.

Tímavél sem virkaði

Akkúrat svona tónlist var flutt á 35 ára afmælistónleikum Todmobile í Eldborg í Hörpu á laugardagskvöldið. Tónlistin var frá níunda áratugnum. Þá var allt var einhvern veginn öðru vísi en það er í dag. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er, en Todmobile tókst að skapa ormagöng og soga mann inn í aðra veröld. Hún virtist ný og dásamlega fersk. Það var bara ekki hægt að fá nóg af henni.

Ef svona tónlist væri í heyrnartólunum, þá gæti heimurinn verið að farast og maður tæki ekkert eftir því.

Þrír góðir gestir

Á tónleikunum komu fram þrír góðir erlendir gestir sem sungu röð frábærra laga frá níunda áratugnum. Þetta voru þeir Midge Ure, Nik Kershaw og Tony Hadley.

Óþarfi er að telja upp lögin, sem voru afskaplega vinsæl í denn. Þarna á tónleikunum voru þau ekki eins og draugslegur ómur úr fortíðinni, heldur var eins og maður væri að heyra þau í fyrsta skipti. Slík var innlifunin í þremenningunum. Hvert einasta lag var gleðisprengja.

Töfrandi Todmobile

Lögin eftir Todmobile voru ekkert síðri. Til dæmis var Spiladósarlagið, þar sem Andrea Gylfadóttir tók nokkur frosin danspor, hreint magnað. Hún söng um galdranorn sem breytti henni í spiladós. Í hljóðheiminum voru falskir tónar – sem áttu að vera falskir. Þeir sköpuðu dásamlegt, ævintýrakennt andrúmsloft.

Almennt talað voru töfrar í tónlist Todmobile. Nefna má samverkandi þætti. Laglínurnar voru t.d. grípandi og takturinn einstaklega eggjandi. En það var ekki bara það. Þar var meira sem erfitt er að útskýra eða skilgreina. Þetta er einmitt máttur góðrar tónlistar. Hún segir eitthvað sem ekki verður komið orðum að, en er heldur ekki hægt að þegja yfir.

Eyþór Arnalds fór hamförum

Andrea Gylfadóttir var stórfengleg. Hún hefur svo mikið karisma - sviðsnærveru - og hún lyfti lögunum upp í hæstu hæðir með tærri en um leið kröftugri, safaríkri rödd. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson var líka frábær á gítarinn, fingurinn flugu yfir strengina. Og maður fékk hálfgert sjokk að sjá Eyþór Arnalds fara hamförum. Í dag er hann virðulegur stjórnmálamaður og viðskiptamógúll, en þarna kom fólið heldur betur upp úr myrkum skúmaskotunum.

Söngurinn hans var einkar lifandi og kröftugur, og sellóið, sem hann sveiflaði í kringum sig, hljómaði skemmtilega.

Trommuleikur Ólafs Hólms var stórglæsilegur, en féll samt fullkomlega inn í heildina. Aðrir hljóðfæraleikara voru líka með sitt á hreinu.

Sinfonia Nord fyllti upp í

Með rytmasveitinni spilaði Sinfóníuhljómsveit Norðurlands undir stjórn Atla Örvarsonar. Hún var fremur smávaxin að þessu sinni, og hljómurinn í henni virkaði meira eins og hann væri til að fylla upp í heildarmyndina, frekar en eitthvað annað. En hann kom vel út.

Stemningin á tónleikunum var góð, nei betri, nei best. Í lokin réðu tónleikagestir ekki við sig, stóðu upp og fóru að dansa. Ég var þar á meðal. Hvílík stigmögnun! Maður sveif út í náttmyrkrið á eftir. Þetta kvöld var einstök skemmtun sem lengi verður í minnum höfð.

Niðurstaða:

Tónlist frá níunda áratugnum virkaði eins og hún væri að hljóma í fyrsta sinn. Söngurinn var snilld og hljóðfæraleikurinn í fremstu röð. Stemningin á tónleikunum var göldrum líkust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×