Viðskipti erlent

Apple sektað um 270 milljarða af ESB

Samúel Karl Ólason skrifar
Margrethe Vestager, aðstoðarforseti framkvæmdastjórnar ESB á blaðamannafundi í dag.
Margrethe Vestager, aðstoðarforseti framkvæmdastjórnar ESB á blaðamannafundi í dag. AP/Geert Vanden Wijngaert

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sektað Apple um tvo milljarða dala vegna einokunar. Forsvarsmenn fyrirtækisins eru sagðir hafa beitt mætti þess til að kæfa samkeppni á sviði tónlistarstreymis.

Það mun Apple hafa gert með því að koma í veg fyrir að notendur Spotify í gegnum stýrikerfi Apple gæti fundið aðrar leiðir til að greiða fyrir þjónustuna. Rætur málsins má rekja til kvörtunar frá forsvarsmönnum Spotify árið 2019.

Um er að ræða um 270 milljarða króna, gróflega reiknað. Ástæða þess að sektin eru svo stór er, samkvæmt yfirlýsingu frá framkvæmdastjórninni, til að koma í veg fyrir að önnur tæknifyrirtæki brjóti af sér með svipuðum hætti.

APP store, forritaverslun Apple, er eina leiðin fyrir notendur til að sækja sér forrit og tekur fyrirtækið hluta af öllum greiðslum sem fara þar í gegn.

Reuters hefur eftir forsvarsmönnum Apple að málinu verði áfrýjað fyrir Almenna dómstól ESB. Líklegt er að málaferlin þar muni taka nokkur ár en Apple þarf þrátt fyrir það að greiða sektina og verða við kröfum framkvæmdastjórnarinnar um bætur á App Store.

Áðurnefndir forsvarsmenn segja ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar vera ranga og að engar sannanir fyrir meintum skaða gegn notendum hafi fundist.

Virði hlutabréfa Apple, næst verðmætasta félags heims, hefur lækkað um tæp þrjú prósent í dag, þegar þetta er skrifað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×