Neytendur

Stjörnugrís sektaður fyrir ís­lenskan fána

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Grísarif borin fram með frönskum og grænmeti.
Grísarif borin fram með frönskum og grænmeti. Stjörnugrís

Neytendastofa hefur lagt fimm hundruð þúsund króna stjórnvaldssekt á Stjörnugrís hf. fyrir brot gegn ákvörðun stofnunarinnar um bann við að nota þjóðfána Íslendinga á umbúðum matvöru úr innfluttu hráefni.

Þetta kemur fram á vef Neytendastofu. Þar segir að með fyrri ákvörðuninni var Stjörnugrís bannað að nota þjóðfána Íslendinga utan á umbúðum matvara sem áttu uppruna að rekja til annarra ríkja en Íslands. Stjörnugrís hafi brotið gegn ákvörðuninni með því að nota brot úr þjóðfána íslendinga utan á umbúðum fyrir grísarif sem voru innflutt frá Þýskalandi.

Í svari Stjörnugrís við athugasemdum Neytendastofu kom fram að toppar komi í sölu á sumum pörtum af svíni sem valdi því að félagið þurfi að bæta við birgðum hjá sér með kaupum á erlendu kjöti til að uppfylla kröfur kaupanda. Það sé einungis brot af framleiðslu félagsins. 

Sumarið 2023 hafi félagið þurft að kaupa grísarif frá Þýskalandi. Félagið sé með fleiri tegundir af rifjum til sölu, t.d. Fabrikkurif, þar sem ekki sé um að ræða fánarönd á pakkningum. Fyrir mistök hafi erlend grísarif verið sett í þær umbúðir sem málið varðar. Á miðanum sjáist að félagið hafi ekki verið að fela upprunaland í innihaldslýsingu. 

„Ekki nokkur maður hafi tekið eftir þessu hjá félaginu fyrr en ábending stofnunarinnar hafi borist þann 18. desember 2023. Um leið og ábendingin hafi borist hafi félagið farið yfir alla ferla hjá sér til að koma í veg fyrir sambærileg mistök. Félagið harmi þessi mistök og muni læra af þeim og passa betur að þetta komi ekki fyrir aftur.“

Neytendastofa taldi nauðsynlegt að leggja stjórnvaldssekt á fyrirtækið fyrir brot gegn fyrri ákvörðun.

Ákvörðunina má lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×