Innlent

Ekkert Covid í fyrsta sinn frá upp­hafi far­aldurs

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Þríeykið var ósjaldan á skjám landsmanna á meðan faraldrinum stóð.
Þríeykið var ósjaldan á skjám landsmanna á meðan faraldrinum stóð. Vísir/Vilhelm

Í fyrsta sinn frá því að Sýkla- og veirufræðideild tók við SARS-CoV 2 greiningum leið vika sem ekkert tilfelli kórónuveirunnar greindust, eða 28. febrúar 2020 þegar faraldurinn hófst á Íslandi. Í vikunni 25. til 31. mars greindust engin tilfelli.

Þetta kemur fram í grafi sem Sýkla- og veirufræðideildin birti á síðu sinni sem sýnir greindar öndunarfæraveirur á tólf vikna tímabili til mánaðamóta. Tölurnar voru birtar í gær.

Guðrún Svanborg Hauksdóttir, yfirlæknir á Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, segir þetta vera gleðifréttir en að þó sé ekkert vitað um framhaldið.

„Já, covidið virðist bara vera horfið. Það hefur aldrei gerst áður síðan það kom fram. Það hefur alltaf hangið í og verið alveg stöðugt. Við erum alveg gáttuð á þessu. Þetta er algjörlega nýtt frá því covidið kom til. Að það greinist bara ekki,“ segir hún í samtali við fréttastofu.

Hún segir þó greiningar á öðrum öndunarfæraveirum ekki af skornum skammti. Það sé nóg af inflúensugreiningum.

„Þetta eru gleðifréttir en maður veit ekki hvernig þetta verður í framtíðinni. Hugsanlega verður þetta kannski árstíðabundið eins og inflúensan. Maður gerir nú ekki ráð fyrir að það sé horfið covidið. En undanfarna viku höfum við ekki greint það en vitum ekki hvert framhaldið verður,“ segir Guðrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×