Erlent

Ca­meron fundar með Trump í Flórída

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Cameron mun funda með Trump í Flórída áður en hann heldur til Washington.
Cameron mun funda með Trump í Flórída áður en hann heldur til Washington. epa

David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands og núverandi utanríkisráðherra, mun funda með Donald Trump, fyrrverandi forseta og núverandi forsetaframbjóðanda, í opinberri heimsókn sinni til Bandaríkjanna.

Guardian segir Cameron munu hitta Trump í Flórída áður en hann heldur til Washington D.C., þar sem hann mun meðal annars ræða við Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þjóðaröryggisráðgjafann Jake Sullivan og Mitch McConnell, leiðtoga Repúblikana í öldungadeildinni.

Talsmaður breska utanríkisráðuneytisins sagði í yfirlýsingu í gær að það væri alvanalegt að ráðherrar ættu fundi með frambjóðendum stjórnarandstöðunnar en um er að ræða fyrsta fund háttsetts embættismanns Bretlands með Trump frá því að hann yfirgaf Hvíta húsið.

Cameron er sagður munu freista þess á fundum sínum með Trump og ráðamönnum vestanhafs að láta ekki af stuðningi sínum við Úkraínu en fjárveitingu vegna stríðsins við Rússa er haldið í gíslingu á þinginu.

Ráðherrann er einnig sagður munu ræða framtíð Atlantshafsbandalagsins en Trump hefur lýst efasemdum sínum bæði gagnvart áframhaldandi fjárstuðningi við Úkraínu og viðbrögð Bandaríkjanna við mögulegri árás á annað aðildarríki Nató.

Þá er hann sagður munu leggja áherslu á að sigur á Rússum sé nauðsynlegur til að tryggja öryggi Evrópu og Bandaríkjanna.

Afskipti Cameron hafa fengið misgóðar viðtökur en fyrr á þessu ári hvatti hann bandaríska þingið til að gera ekki sömu mistök og í seinni heimstyrjöldinni og sýna veikleika eins og menn gerðu gagnvart Hitler.

Marjorie Taylor Greene, þingmaður og ötull stuðningsmaður Trump, brást við með því að bjóða Cameron að „kissa á sér rassinn“ og verja tíma sínum í að hafa áhyggjur af stöðu mála í eigin landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×