Körfubolti

„Kviknaði á okkur og við náðum að slökkva í þeim“

Stefán Marteinn skrifar
Birna Benónýsdóttir var eðlilega sátt með sigur dagsins.
Birna Benónýsdóttir var eðlilega sátt með sigur dagsins. Vísir/Hulda Margrét

Keflavík lagði Stjörnuna af velli í fyrsta leik liðana í undanúrslitum Subway-deildar kvenna þegar liðin mættust í Blue-höllinni í Keflavík 93-65.

„Ég er ánægð með það hvernig við komum til baka í seinni hálfleik eftir mjög slakan fyrri hálfleik og gengum frá þessu,“ sagði Birna Benónýsdóttir leikmaður Keflavíkur eftir sigurinn í dag.

Stjarnan byrjaði leikinn mun betur og leiddu eftir fyrri hálfleik en kröftug endurkoma frá Keflavík í þeim seinni skilaði frábærum sigri.

„Það eru tíu dagar síðan við spiluðum síðast. Það er því kannski eðlilegt að við mætum pínu ryðgaðar. Við þurftum bara aðeins að spila okkur í gang og þá kom þetta.“

Birna vildi meina að Keflavíkurliðið hafi leitað inn á við og breytt hugarfarinu frekar en að liðið hafi farið í einhverjar áherslubreytingar fyrir seinni hálfleikinn.

„Í raun bara svolítið inn á við. Við fundum bara að við vorum ekki í takti við leikinn í fyrri hálfleik og við töluðum bara um að mæta ákveðnari og í raun gera bara betur á öllum sviðum í seinni hálfleik sem að mér fannst við gera.“

Keflavík mættu eins og áður hefur komið fram með gríðarlegum krafti út í seinni hálfleikinn og vildi Birna meina að það hafi einfaldlega bara kviknað á Keflavíkurliðinu þá.

„Ég veit ekki alveg hvernig ég á að orða það betur en að það bara kviknaði á okkur. Mér fannst við vera rísa úr svolitlum dvala eftir fyrri hálfleik. Það kviknaði bara á okkur og við náðum að slökkva í þeim ef það er hægt að segja það. “

Birna býst við að þetta verði hörku sería og mikil barátta í báðar áttir.

„Baráttu og þetta verður hörku sería. Þær eru ógeðslega duglegar Stjörnustelpurnar og leikurinn er aldrei búinn fyrr en það er búið að flauta hann af. Ég held þetta verði hörku sería og mikil barátta í báðar áttir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×