Erlent

Yousaf segir af sér sem ráð­herra og for­maður Skoska þjóðar­flokksins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Yousaf sagði af sér í morgun í kjölfar ákvörðunar hans um að slíta samstarfinu við Græningja. Banabiti samstarfsins voru markmið Skotlands í loftslagsmálum.
Yousaf sagði af sér í morgun í kjölfar ákvörðunar hans um að slíta samstarfinu við Græningja. Banabiti samstarfsins voru markmið Skotlands í loftslagsmálum. AP/Andrew Milligan

Humza Yousaf, fyrsti ráðherra Skotlands, hefur ákveðið að segja af sér. Yousaf átti yfir höfði sér vantraustsyfirlýsingu vegna ákvörðunar hans um að rjúfa samstarf Skoska þjóðarflokksins og Græningja.

Ákvörðun Yousaf leiddi til minnihlutastjórnar Skoska þjóðaflokksins en ráðherrann sagðist í ávarpi í morgun hafa vonast til þess að geta átt í áframhaldandi samstarfi við Græningja, þótt það yrði óformlegt.

Hann hefði augljóslega vanmetið þau sárindi sem ákvörðun hans hefði valdið Græningjum.

Yousef sagði að leiðir hefðu verið opnar til að verjast vantrausti en að hann vildi ekki fórna hugsjónum sínum og gildum til þess eins að halda völdum. Þannig hefði hann komist að þeirri niðurstöðu að það væri öllum til heilla að annar tæki við forystunni og freistaði þess að græða sár.

Alex Salmond, fyrrverandi leiðtogi Skoska þjóðarflokksins og núverandi leiðtogi Alba, sagði á föstudag að þingmaður flokksins myndi verja Yousef vantrausti ef hann samþykkti að vinna að því með Alba að koma sem flestum sjálfstæðissinnum inn á þing.

Tillögunni var svarað af Stewart McDonald, þingmanni Skoska þjóðaflokksins fyrir Glasgow, sem sagði bandalag við Alba myndu vekja hroll meðal kjósenda og í höfuðborgum Evrópu. Benti hann á að Salmond hefði verið þáttastjórnandi rússnesku sjónvarpsstöðvarinnar RT.

Græningjar segjast reiðubúnir til að vinna með nýjum leiðtoga Skoska þjóðarflokksins að framsæknum stefnumálum þeirra. Einn hefur stigið fram; John Swinney, sem var leiðtogi flokksins á árunum 2000 til 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×