Upp­gjörið, við­töl og myndir: Stjarnan - Kefla­vík 85-82 | Hvolpa­sveitin jafnaði ein­vígið

Andri Már Eggertsson skrifar
Stjarnan vann óvæntan sigur gegn Keflavík
Stjarnan vann óvæntan sigur gegn Keflavík Vísir/Vilhelm

Stjarnan skellti deildarmeisturunum eftir ótrúlegan leik. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann þar sem Stjarnan var yfir meiri hlutann af leiknum í forystu. Lokasekúndurnar voru ótrúlegar og heimakonur náðu að klára leikinn. Staðan í einvíginu er jöfn 1-1. 

Líkt og í síðasta leik byrjaði Stjarnan afar vel. Heimakonur gerðu fyrstu fimm stigin en Keflavík svaraði með sjö stigum í röð. Það sló hins vegar ungt lið Stjörnunnar ekki út af laginu þar sem heimakonur gerðu níu stig í röð og komust 14-7 yfir. Keflavík var þó þremur stigum yfir eftir fyrsta leikhluta 20-23.

Denia Davis-Stewart gerði 22 stig og tók 11 fráköstVísir/Vilhelm

Birna Benónýsdóttir gerði tólf stig í fyrsta leikhluta og hvíldi fyrstu fimm mínúturnar í öðrum leikhluta sem Stjarnan nýtti sér þar sem það fór taktur úr liði Keflavíkur. Sóknarleikur Stjörnunnar var frábær í öðrum leikhluta sem skilaði heimakonum 27 stigum.

Stjarnan var fimm stigum yfir í hálfleik 47-42.

Birna Benónýsdóttir klappar í leik dagsinsVísir/Vilhelm

Heimakonur byrjuðu síðari hálfleik frábærlega og komust tíu stigum yfir eftir tæplega fjórar mínútur. Eftir að Kolbrún María Ármannsdóttir gerði fimm stig í röð tók Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, viðstöðulaust leikhlé.

Ólíkt síðasta leik voru heimakonur voru óvænt sjö stigum yfir 63-56 þegar að haldið var í síðasta fjórðung.

Sverrir Þór Sverrisson að ræða við dómarannVísir/Vilhelm

Keflavík byrjaði fjórða leikhluta töluvert betur og eftir að hafa gert þrjár auðveldar körfur í röð tók Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, leikhlé í stöðunni 65-64.

Þegar að tvær mínútur voru eftir var Keflavík sex stigum yfir 74-80. Stjarnan gafst hinsvegar ekki upp og vann síðustu tvær mínúturnar 11-2.

Ísold Sævarsdóttir fór á kostum í leiknumVísir/Vilhelm

Atvik leiksins

Keflavík var einu stigi undir þegar að ellefu sekúndur voru eftir. Sókn Keflavíkur endaði með að Elisa Pinzan tók snöggan þrist sem fór ekki ofan í og þá var sigur Stjörnunnar gott sem í höfn.

Stjörnur og skúrkar

Ísold Sævarsdóttir var frábær í liði Stjörnunnar. Ísold var ísköld þegar hún setti tvö vítaskot ofan í og kom Stjörnunni einu stigi yfir þegar að ellefu sekúndur voru eftir. Ísold endaði með 25 stig, 6 fráköst og 8 stoðsendingar.

Denia Davis-Stewart var með tvöfalda tvennu í dag. Hún gerði 22 stig og tók einnig 11 fráköst. 

Dómararnir

Dómarar leiksins voru Sigmundur Már Herbertsson, Bjarni Hlíðkvist Kristjánsson og Stefán Kristinsson. Það vakti athygli að dómarar gátu skoðað atvik leiksins í skjá þrátt fyrir að sjónvarps útsendingin var aðeins með eina myndavél. Skemmtileg nýjung en þeir þurftu þó ekki að nota tæknina.

Dómararnir stóðu sig ágætlega og fá 6 í einkunn.

Stemning og umgjörð

Umgjörðin var til fyrirmyndar hjá Stjörnunni og stuðningsmenn Stjörnunnar stóðu sig vel á trommunum og létu í sér heyra.

Það var mikið fagnað eftir leikVísir/Vilhelm

Það ætlaði allt um koll að keyra þegar leikurinn kláraðist og sigur Stjörnunnar var í höfn. Stuðningsmenn Stjörnunnar hlupu inn á völlinn og fögnuðu af mikilli einlægni. 

„Spekingarnir hafa talað um að við ættum að vinna þetta einvígi 3-0 þá er þetta ekki svona einfalt“

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, á hliðarlínunni í leik dagsinsVísir/Vilhelm

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, var afar svekktur eftir tap gegn Stjörnunni.

„Fyrir utan fyrsta leikhluta vorum við eftir allan tímann. Ekkert rosalega mikið en svo var þetta jafnt í restina og við komust yfir en Stjarnan gerði vel á lokamínútunum,“ sagði Sverrir Þór eftir leik og hélt áfram.

„Undir restina var þetta spurning um smá heppni og við vorum ekki að klára færin sem við vorum að fá á meðan þær hittu úr stórum skotum. Við erum að spila við hörkulið þó að spekingarnir hafa talað um að við ættum að vinna þetta einvígi 3-0 þá er þetta ekki svona einfalt. Núna snýst þetta um að ná að vinna þær einu sinni í viðbót og við hugsum svo út frá því.“

Keflavík komst sex stigum yfir þegar að tvær mínútur voru eftir en var það kæruleysi að klára ekki leikinn?

„Já og svo er líka spurning ef einhver skot hefðu dottið. Nei nei við skoðum þetta bara og við þurfum að laga ýmislegt. Mér fannst við skora nóg í dag en hefðum átt að gera mun betur varnarlega. Ísold [Sævarsdóttir] komst þangað sem hún vildi sem var lykillinn af þessu hjá þeim.“

Elisa Pinzan tók þriggja stiga skot þegar ellefu sekúndur voru eftir og Sverrir var nokkuð ánægður með þá sókn hjá Keflavík þó boltinn hafi ekki farið ofan í.

„Ég var búinn að leggja upp með að sækja á körfuna. En stuttu áður hafði hún sett þrist ofan í og þetta var fínt skot hjá henni sem hefði alveg getað farið ofan í,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson að lokum. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira