Handbolti

Fjölnir tryggði sér sæti Olís deildinni á næsta tíma­bili

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Viktor Berg Grétarsson skoraði 4 mörk í leiknum.
Viktor Berg Grétarsson skoraði 4 mörk í leiknum. facebook / fjölnir handbolti

Fjölnir tryggði sér sæti í Olís deild karla á næsta tímabili með 24-23 sigri gegn Þór í oddaleik umspilsins í Grill 66 deildinni. 

Um oddaleik var að ræða sem fór fram í Fjölnishöllinni við Egilshöll. Fjölnir vann fyrsta leikinn eftir framlengingu, tapaði svo tveimur í röð en sótti sigur síðast fyrir norðan og knúði fram oddaleik. 

Gestirnir frá Akureyri skoruðu fyrsta mark leiksins og voru við völd allan fyrri hálfleikinn en heimamenn Fjölnis héldu vel í og hleyptu þeim aldrei langt undan. Þór var þremur mörkum yfir, 11-14, þegar flautað var til hálfleiks. 

Fjölnir vann á forystuna í seinni hálfleik og leiddi með fjórum mörkum, 22-18, þegar tæpar tíu mínútur voru eftir. 

Þórsarar áttu frábæran endasprett og jöfnuðu leikinn, 22-22, þegar rétt rúmlega fjórar mínútur voru til leiksloka. 

Alex Máni Oddnýjarson tók sig þá til og kom Fjölni aftur marki yfir, Björgvin Páll Rúnarsson tryggði svo sigurinn með 24. marki Fjölnis þegar þrettán sekúndur voru eftir af leiknum. 

Þórsarar minnkuðu muninn í eitt mark eftir að leiktímanum lauk en sitja eftir með sárt ennið og þurfa að reyna aftur að ári. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×