Handbolti

Aftur­elding einum sigri frá úr­slitum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Birkir Benediktsson var öflugur í liði Aftureldingar í dag.
Birkir Benediktsson var öflugur í liði Aftureldingar í dag. VÍSIR/BÁRA

Afturelding lagði Val í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla í handbolta. Heimamenn leiddu allan leikinn en gestirnir gerðu áhlaup í blálokin og náðu að minnka muninn niður í eitt mark, lokatölur 26-25.

Afturelding byrjaði leikinn af krafti en liðið mátti þola stórt tap á Hlíðarenda í öðrum leik einvígisins. Það virtist sem heimamenn hafi ætlað að bæta upp fyrir það en munurinn var alltaf í kringum fjögur til fimm mörk.

Gestirnir náðu að lagfæra þá stöðu örlítið áður en flautað var til hálfleiks, staðan þá 15-12. Gestunum gekk illa að ná áhlaupi á þétta vörn heimamanna en það var ekki fyrr en örskammt var til leiksloka sem Valsarar minnkuðu muninn í eitt mark. Nær komust þeir ekki og Afturelding er nú aðeins einum sigri frá því að komast í úrslit Olís-deildarinnar.

Ihor Kopyshynskyi og Birkir Benediktsson voru markahæstir í liði Aftureldingar með fimm mörk hvor. Ísak Gústafsson, Tjörvi Týr Gíslason og Úlfar Páll Monsi Þórðarson voru markahæstir hjá Val með fjögur mörk hver.

Brynjar Vignir Sigurjónsson varði 12 skot í marki Aftureldingar og Jovan Kukobat varði tvö. Hjá Val varði Björgvin Páll Gústavsson 15 skot ásamt því að skora eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×