Körfubolti

„Ef maður fær opin skot þá verður maður að taka þau“

Stefán Marteinn skrifar
Anna Ingunn Svansdóttir fagnar innilega með Birnu Benónýsdóttur.
Anna Ingunn Svansdóttir fagnar innilega með Birnu Benónýsdóttur. Vísir/Hulda Margrét

Keflavík lagði Stjörnuna af velli í þriðja leik liðana í undanúrslitum Subway-deildar kvenna í körfubolta þegar liðin mættust í Blue-höllinni í Keflavík, lokatölur 87-78.

„Hún [Tilfinningin] er bara mjög góð. Við gerðum vel í þriðja og fjórða leikhluta, náðum að vinna þennan leik sem var mjög góð tilfinning,“ sagði Anna Ingunn Svansdóttir, fyrirliði Keflavíkur, eftir sigurinn í dag.

Fyrirliðinn átti frábæran fjórða leikhluta í leiknum í dag og setti niður mikilvæg stig sem hjálpuðu Keflavík að landa góðum sigri.

„Ef maður er með opin skot þá verður maður að taka þau og vera með sjálfstraustið. Ég held að við höfum bara allar verið með sjálfstraust í þriðja og fjórða leikhluta og sett þetta niður og svo skilaði vörnin þvílíkt líka.“

Anna Ingunn skoraði ekki stig í fyrri hálfleiknum en mætti á eldi út í seinni hálfleikinn og endaði stigahæst í liði Keflavíkur.

„Ég kom inn á og ætlaði að spila ógeðslega góða vörn og það oft kveikir í manni og svo á maður bara að skjóta þegar maður er opin. Bara setja þetta.“

Stjörnuliðið spilaði flottan leik í dag og hrósaði Anna Ingunn liði Stjörnunnar hástert.

„Þær eru með ógeðslega gott lið og þær berjast allan tímann og með góðan þjálfara í Arnari og þær scout-a okkur vel. Þær eru ungar en það skiptir ekki máli því þær eru ógeðslega góðar og gera alltaf vel. Þetta var aldrei að fara vera auðvelt fyrir okkur og við vissum það alveg.“

Fyrirliðinn vildi meina að lykillinn að sigrinum í dag hafi verið vörnin og samvinna.

„Ég held bara vörnin. Við vorum að fá stopp og skor. Við náðum að stoppa og svo skora og við gerðum þetta allar saman í seinni hálfleik og ég held að það hafi verið lykillinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×