Handbolti

„Höfum spilað vel án Arons áður“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Sigursteinn Arndal gat leyft sér að brosa á hliðarlínunni. 
Sigursteinn Arndal gat leyft sér að brosa á hliðarlínunni.  Vísir/Pawel

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var sigurreifur að loknum sannfærandi sigri liðsins gegn ÍBV í oddaleik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla í handbolta í Kaplakrika í kvöld. 

„Við náðum strax upp sterkri vörn og þar fyrir aftan var Daníel Freyr frábær. Það gefur okkur færi á hraðaupphlaupsmörkum sem skila forskoti og sjálfstrausti í liðið. Liðsheildin var frábær og margir sem lögðu hönd á plóg við að halda varnarleiknum svona góðum,“ sagði Sigursteinn. 

„Það varð strax ljóst eftir leikinn í Eyjum að Aron yrði ekki með í þessum leik og við undirbjuggum okkur undir það milli leikja. Við höfum spilað áður vel án Arons bæði í vetur og á síðustu tímabilum og við vissum það vel að við erum með gott lið án hans,“ sagði hann um undirbúninginn. 

„Ásbjörn Friðriksson tók aukna ábyrgð á herðar sínar í fjarveru Arons og gerði það frábærlega. Við vitum öll hvers megnugur Ási er og hann sýndi það í þessum leik. Ég vil þó ítreka það að þetta var sigru liðsheildarinnar fyrst og fremst,“ sagði þjálfarinn hreykinn. 

„Það er ólýsanlegt fyrir mig að spila í jafn mikilli stemmingu og var hér í Kaplakrika í kvöld. Sú vinna sem sjálfboðaliðar sinntu alla vikuna og bara viku eftir viku til þess að skapa svona geggjaða umgjörð er algjörlega ómetanleg.

Nú tekur við smá pása og það eru bara kostir og gallar við það. Við vissum af þessu þegar tímabilið hófst að þetta yrði svona og þetta er bara staðan. Fram undan er bara að búa okkur eins vel og nokkur möguleiki er fyrir úrslitaeinvígið,“ segir Sigursteinn um stemminguna í kvöld og framhaldið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×