Fótbolti

„Þegar ég var sjö ára í Birmingham dreymdi mig um svona kvöld“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jude Bellingham er kominn í úrslit Meistaradeildar Evrópu í fyrsta sinn.
Jude Bellingham er kominn í úrslit Meistaradeildar Evrópu í fyrsta sinn. getty/Clive Brunskill

Jude Bellingham var í skýjunum þegar Real Madrid komst í úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir dramatískan sigur á Bayern München, 2-1, á Santiago Bernabéu í kvöld.

Þegar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma jafnaði varamaðurinn Joselu fyrir Real Madrid. Hann skoraði svo sigurmarkið í uppbótartíma og kom Madrídingum í sinn sjötta úrslitaleik á ellefu árum.

„Oft og mörgum sinnum höfum við virst vera dauðir og grafnir en við gefumst aldrei upp. Það er ástæða fyrir því að við snúum svona mörgum leikjum okkur í hag, það er vegna stuðningsmannanna. Þeir gefa okkur orku sem þú færð hvergi annars staðar,“ sagði Bellingham eftir leikinn.

Hann segir Real Madrid staðráðið að vinna enn einn Evrópumeistaratitilinn þegar liðið mætir Borussia Dortmund í úrslitaleiknum á Wembley 1. júní.

„Þeir tala um hvernig þeir unnu fjórtánda titilinn, hvernig þeir vilja vinna þann fimmtánda. Þú ert aldrei saddur,“ sagði Bellingham og lýsti andrúmsloftinu í leikmannahópi Real Madrid. „Okkur líður eins og fjölskyldu, leikmönnum og stuðningsmönnum.“

Enski landsliðsmaðurinn hlakkar til að mæta gamla liðinu sínu, Dortmund, í úrslitaleiknum.

„Á Wembley, gegn Dortmund, það verður skrítið. Ég trúi því ekki. Þegar ég var sjö ára í Birmingham dreymdi mig um svona kvöld,“ sagði Bellingham.


Tengdar fréttir

Aðstoðardómarinn bað Bæjara afsökunar: „Þetta er hörmung“

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Bayern München, segir að annar aðstoðardómarinn í leiknum gegn Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu hafi beðist afsökunar á að hafa lyft flaggi sínu of snemma þegar Bæjarar skoruðu undir lokin. Real vann leikinn, 2-1, og einvígið, 4-3 samanlagt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×