Umræðan

Trú­verðug­leiki skiptir máli

Diljá Matthíasardóttir skrifar

Ákvarðanir peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að halda meginvöxtum bankans óbreyttum síðustu misseri hafa, nú líkt og áður, leitt til þess að æ fleiri virðast velta fyrir sér ástæðum þeirra og hlutverki. Það er ekki óeðlilegt enda eru slæmar afleiðingar verðbólgu margvíslegar. Því er einkar gott að staldra við og líta yfir farinn veg.

Á 40 ára afmæli Seðlabankans sem sjálfstæðrar stofnunar var ákveðið að bankinn skyldi taka upp formlegt verðbólgumarkmið. Samkvæmt því ber Seðlabankanum að stuðla að því að árleg verðbólga verði að jafnaði sem næst 2,5 prósent. Verðbólgumarkmiðið var í kjölfarið samþykkt nær einróma á þingi og var Seðlabankanum jafnframt gefið óskorað sjálfstæði til þess að fylgja markmiðinu eftir. Hlutverk Seðlabankans er því skýrt lögum samkvæmt.

Helsta stjórntæki Seðlabankans til að ná verðbólgumarkmiðinu eru meginvextir bankans. Þegar þensla er í hagkerfinu — líkt og nú — leitast Seðlabankinn við að draga úr þeim umsvifum með hækkun meginvaxta þannig að eftirspurn leiti í betra jafnvægi og verðbólga hjaðni. Þetta ferli getur verið tímafrekt og komið sárlega við fjárhag heimila og fyrirtækja. Aðlöguninni fylgir hins vegar minni sársauki eftir því sem trúverðugleiki peningastefnunnar er meiri.

Meiri trúverðugleiki auðveldar Seðlabankanum að hafa áhrif á verðbólguvæntingar og þar með að draga úr sveiflum í verðbólgu og eftirspurn.

Ef markaðsaðilar bera traust til þess að peningastefnan geti tryggt að verðbólga verði almennt nálægt verðbólgumarkmiðinu þarf minni vaxtabreytingar en ella til að ná tökum á þróuninni á nýjan leik, að öðru óbreyttu. Þannig auðveldar meiri trúverðugleiki Seðlabankanum að hafa áhrif á verðbólguvæntingar og þar með að draga úr sveiflum í verðbólgu og eftirspurn.

Það er því keppikefli heimila og fyrirtækja að staðinn sé vörður um trúverðugleika peningastefnunnar. Slíkur varnarleikur — sem er nægilega erfiður fyrir — verður aftur á móti þrautinni þyngri samhliða sífelldum óábyrgum ummælum hinna ýmsu kjörnu fulltrúa sem nú sitja á Alþingi.

Höfundur er hagfræðingur Samtaka ferðaþjónustunnar og stjórnarmaður í Hagsmunafélagi kvenna í hagfræði.


Tengdar fréttir

Hægir enn á hag­vexti og auknar líkur á að nú­verandi raun­vaxta­stig sé „hæfi­legt“

Horfur eru á að hagvöxtur verði umtalsvert minni í ár en Seðlabankinn gerði áður ráð fyrir samhliða því að hægt hefur nokkuð á vexti innlendrar eftirspurnar. Peningastefnunefnd hefur ákveðið halda vöxtum bankans óbreyttum fimmta fundinn í röð, sem er í samræmi við spár allra greinenda og markaðsaðila, og telur núna meiri líkur en áður að aðhaldsstigið dugi til að ná verðbólgunni niður í markmið.




Umræðan

Sjá meira


×