Enski boltinn

„Höfum ekki haft neitt svig­rúm til að gera mis­tök“

Siggeir Ævarsson skrifar
Mikel Arteta kampakátur.
Mikel Arteta kampakátur. Getty/Marc Atkins

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, var sáttur með 0-1 sigur á Old Trafford í dag en vill þó ekki leyfa sér að fagna um of strax.

„Ég er virkilega ánægður með úrslitin enda er allt undir. Við höfum ekki haft neitt svigrúm til að gera mistök alveg síðan í janúar. Við höfum þurft að halda áfram að vinna og vinna leiki burtséð frá hvað önnur lið hafa verið að gera.“

Leikmenn Manchester United gerðu sig nokkrum sinnum líklega til að jafna leikinn undir lokin en jafntefli hefði þýtt að titilvon Arsenal hefði gufað upp.

„Ég var mjög stressaður því við vissum hvað jafntefli myndi þýða. Mér fannst liðið vera á góðum stað fyrir leik og við byrjuðum leikinn vel með því að skora. En svo fórum við að spila varfærnislega og reyna að verja forskotið og vorum ekki sjálfum okkur líkir og mér líkaði það ekki. En við vörðumst vel og eftir að við náðum réttum takti í vörnina vorum við frábærir.“

Hann sagði að allir gerðu sér grein fyrir hvað væri í húfi fyrir lokaleikinn gegn Everton á sunnudaginn í næstu viku.

„Það eru allir iðandi í skinninu. Við viljum fá að upplifa þetta augnablik saman en við þurfum líka að vinna fyrir því. Að eiga möguleika á að vinna deildina er partur af okkar ferðalagi. Við munum undirbúa okkur fyrir leikinn á hefðbundinn hátt eins og í hverri viku, reyna að vera á góðum stað og gera okkar besta til að leggja Everton að velli.“

Aðspurður hvort hann myndi halda með erkifjendunum í Tottenham þegar liðið tekur á móti Manchester City á þriðjudaginn fór hann undan í flæmingi.

„Við vitum að við þurfum á því að halda [að þeir vinni] og að þeir eru mjög erfitt lið að spila við. Við fundum fyrir því þegar við spiluðum við þá fyrir nokkrum vikum svo að vonandi geta þeir náð í sigur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×