Atvinnulíf

Snillingur í út­löndum: „Þegar vinirnir keyptu sér nammi keypti ég mér diskókúlur“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Karl Jónsson, Chief of Strategy hjá fyrirtækinu LUUM.IO í Bandaríkjunum, hefur tekist það sem mörgum dreymir um: Að selja einkaleyfi fyrir nýskapaðar vörur sem hann hefur sjálfið búið til og það til alþjóðlegs stórfyrirtækis! Saga Karls er skemmtileg og að hans sögn samtengd því hversu dugleg mamma hans var að fara á diskó í Hollywood í gamla daga. 
Karl Jónsson, Chief of Strategy hjá fyrirtækinu LUUM.IO í Bandaríkjunum, hefur tekist það sem mörgum dreymir um: Að selja einkaleyfi fyrir nýskapaðar vörur sem hann hefur sjálfið búið til og það til alþjóðlegs stórfyrirtækis! Saga Karls er skemmtileg og að hans sögn samtengd því hversu dugleg mamma hans var að fara á diskó í Hollywood í gamla daga.  Vísir/Vilhelm

„Ég hef verði dolfallinn af ljósum frá því að ég man eftir mér. Fimm ára gamall var ég farinn að safna ljósaperum. Þegar vinirnir keyptu sér nammi keypti ég mér diskókúlur,“ segir Karl Jónsson, Chief of Strategy hjá fyrirtækinu LUUM.IO í Bandaríkjunum.

Ég vil meina að þetta séu áhrif af því hversu mikið mamma fór í Hollywood.

 Ég ólst upp við diskótónlistina og ljósin í gegnum augun hennar,“ 

segir Karl og hlær.

En sagan hans er vægast sagt ótrúlega skemmtileg. Spannar íslenska skemmtanalífið, danska sjónvarpsþætti, Ameríku eins og hún gerist best og alls kyns tækifæri sem hafa bankað upp á dyrnar hjá Karli.

„Ég held enn á lofti þessu safni,“ segir Karl síðan og vísar í ljósaperusafnið góða, sem hann hefur einfaldlega flutt með sér á milli heimsálfa.

Karl er einn þeirra sem heldur fyrirlestur í tilefni af Innovation Week sem haldin er alla þessa viku víðsvegar um Reykjavík. Fyrirlestur Karls hefst kl. 11:30 í Grósku, þriðjudaginn 14. Maí og er á vegum SI, Kerecis og Hugverkastofunnar. Í fyrirlestrinum mun Karl meðal annars segja frá sinni reynslu af því sem frumkvöðull, að skrásetja og selja einkaleyfi í kjölfar þróunar á nýjum vörum.

Árið 1997 fóru Karl og Sigurbjörg Bergþórsdóttir eiginkona hans til Danmerkur en óvænt bauðst þeim tækifæri til að flytja til Kaliforníu í Bandaríkjunum árið 2006. Þar búa þau enn með börnunum sínum þremur: Margréti Allý, Tóbíasi Inga og Mörtu Lísu sem er yngst.

Of lágvaxinn fyrir skemmtistaðina

Karl er fæddur árið 1976 í Reykjavík. Mamman hans átti hann ung, aðeins 19 ára og bjó því enn í foreldrahúsum þegar Karl fæddist.

„Hún er þessi harðjaxl eins og svo margir Íslendingar, var í mörgum vinnum til að láta enda ná saman.“

Fjölskyldan flutti til Danmerkur þegar Karl var átta ára og þar kynnist hann íslenskum strák sem hann hitti síðan ekki fyrr en mörgum árum síðar aftur en reyndist mikill örlagavaldur í hans lífi, Áki Pétursson.

„Við smellpössuðum saman því hann hafði líka áhuga á ljósum,“ segir Karl til útskýringar á vinskapnum.

„Pabbi hans átti skemmtistað og Áki var snemma farinn að starfa sem plötusnúður á Íslandi. Við hittumst þó ekki aftur fyrr en 1995 og þá á Tunglinu.“

Í millitíðinni hafði Karl flutt með fjölskyldunni aftur til Íslands og enn aftur til Danmerkur þar sem hann kláraði tíunda bekkinn, í sama skóla og hann hafði þá verið í þar áður.

„Pabbi var að vinna í sprotafyrirtæki þar en eftir tíunda bekkinn fluttum við aftur til Íslands og ég ákvað að fara í rafeindavirkjun í Iðnskólanum. Þó ætlaði ég mér aldrei í sveinsprófið, sem ég tók að lokum einfaldlega vegna þess að ég ílengdist í vinnu hjá Tæknival og hafði góða aðstöðu til þess að gera það.“

Karl segir að það hafi háð honum aðeins, að hann var frekar lágvaxinn og átti því ekki séns á að smygla sér inn á skemmtistaðina.

„Í kjölfar snjóflóðanna í Súðavík voru haldnir styrktar tónleikar í Tunglinu og þar sem tónleikarnir voru haldnir eftir þann átakanlega atburð, gilti ekki hefðbundið aldurstakmark. Þannig að ég komst inn og það var þá sem ég hitti Áka aftur.“

Mynd/efri: Karl og Áki Pétursson á Tunglinu, neðri með Hrannari Hafsteinssyni á Eldborg en árin sem Karl byrjaði að vinna með ljós og forritun þeirra, var mikið að gerast í íslensku tónlistar- og skemmtanalífi. Uxahátíðin, Eldborg og margar erlendar stórstjörnur með tónleika. Á mynd th. er Karl að forrita ljós í Tívólíinu í Kaupmannahöfn.

David Bowie, Sting og fleiri stórstjörnur

Þetta kvöld var Áki plötusnúður á Tunglinu og þegar þeir hittast, segir hann Karli frá þessum svakalegu ljósum sem staðurinn væri kominn með.

„Þessi svaka ljós, róbótar og milljón takkar.“

Nema að því miður kunni enginn á þessa spennandi græju.

Þannig að Áki rétti mér handbók með ljósunum sem var á þykkt við símaskránna og sagði: 

Getur þú ekki reynt að finna út úr því hvernig þetta virkar?“

Fyrir Karl var þetta vægast sagt spennandi. Heil símaskrá með leiðbeiningum um ljós og öllu tilheyrandi.

Þetta var eins og ljósabiblía frá a-ö.

Sem Karl auðvitað las upp til agna þegar heim var komið.

„Ég endaði því með að verða sérfræðingurinn í þessum ljósum. Fyrirtækið Exton átti þessi ljós og áður en ég vissi af voru þeir farnir að biðja mig um að vinna á öllum tónleikum og helstu viðburðum sem voru í gangi, þar sem ég forritaði þá ljósin,“ segir Karl og nefnir nokkur dæmi.

„Skunk Anansie, Sting, David Bowie, Prodigy.“

Uxahátíðin var haldin á þessum tíma, nánar tiltekið um verslunarhelgina 1995, en þar komu fram allir helstu tónlistarmenn landsins á þeim tíma, auk ýmissa þekktra aðila erlendis frá.

Já svo sannarlega var þetta gósentíð fyrir ungan ljósameistara.

Karl hefur safnað ljósaperum frá því að hann var fimm ára og heldur enn utan um það safn. Karl byrjaði á því að fara í rafeindavirkjun í Iðnskólanum, en kláraði síðar rafmagnsverkfræði í Kaupmannahöfn og meistaranám í tölvunarfræði. Ótrúlega margt hefur gerst í snjalltækninni síðustu árin en í henni var Karl í raun farin að grúska fyrir um tuttugu árum síðan.Vísir/Vilhelm

Danska Idol-ið og fleiri sjónvarpsþættir

Karl ákvað þó að halda til Danmerkur árið 1997 og hefja þar nám í rafmagnsverkfræði.

Hann var þá þegar búinn að kynnast eiginkonu sinni, Sigurbjörgu Bergþórsdóttur, kölluð Sibba.

„Við vorum enn að deita þegar ég fór út, og bjuggum bæði í foreldrahúsum. En ég stakk þá upp á því að hún myndi flytja með mér til Danmerkur og hún einfaldlega ákvað bara að kýla á þetta og sagði Já,“ segir Karl og bætir hlæjandi við:

„Sem var auðvitað hálfgert „wild card.“

Í Danmörku kláraði Karl sitt nám en Sibba fór í tækniteiknun. Í dag eru börnin þeirra þrjú; Margrét Allý fædd 2003, Tóbías Ingi fæddur 2006 og Marta Lísa fædd 2013.

Með náminu fékk Karl hina fullkomnu vinnu að hans sögn.

Ég bankaði upp á hjá öllum ljósafyrirtækjunum í Kaupmannahöfn og endaði með að fara að vinna fyrir þau flest öll. 

Það var hin fullkomna hliðarvinna því ég var þá bara að vinna á kvöldin og um helgar í hinum og þessum verkefnum, til dæmis dönsku seríunni af Idolinu, Eurovision 2001, Jólaleikriti Tívoli, Cabaret söngleiknum, tónleikaferðalag með hinni Dansk/Norsku Aqua og margt fleira,“ 

segir Karl og bætir við:

„Ég endaði með að toga alltaf fleiri og fleiri Íslendinga inn í þessi verkefni, enda voru þetta meira og minna Íslendingar síðar sem sáu um Hróaskelduhátíðina um tíma og ennþá að miklu leiti í dag, sú vinna byrjaði með okkur Hrannari Hafsteinssyni, og hann hélt því áfram um árabil eftir að ég flutti frá Danmörku.“

Verkefnin voru þó ekki aðeins tengd ljósum, heldur líka þessi hefðbundnu baksviðsstörf, með kapla og annan tækjabúnað.

„En þetta var rosalega skemmtilegur tími.“

Þegar Karl útskrifaðist með háskólagráðuna, var ætlunin að finna spennandi starf.

„En þá kom .com bomban og ég hugsaði með mér að fyrst atvinnulífið væri í lamasessi, gæti ég allt eins farið í meistaranám.“

Sem Karl og gerði og lauk þá meistaragráðu í upplýsinga og tölvunarfræði.

Jafn ótrúlega og það hljómar fjallaði lokaritgerðin hans Karls um það hvernig smartheimili framtíðarinnar gætu stjórnast úr símanum.

Sem er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að ritgerðina skrifaði Karl árið 2003.

Aðspurður segist Karl lengi hafa verið á undan sinni samtíð þegar kemur að þessari tækni.

„Ég man að ég var enn með Nokia 3650 símann þegar ég náði fyrst að kveikja og slökkva á ljósaperu með því að tengja Nokia símann með Bluetooth við PC tölvu,“ segir Karl og útskýrir að hinn umræddi sími hafi verið sá fyrsti sinnar tegundar sem var með Bluetooth.

Fáum grunaði þó á þessum tíma að nánast allt yrði hægt í gegnum símann um tveimur áratugum síðar eins og nú er.

Eftir útskrift fékk Karl starf hjá Dönsku fyrirtæki sem var framarlega í framleiðslu dvd tækja og dreifingu á myndefni. Því að hugbúnaður á þeirra vegum bjó yfir þeirri nýstárlegu tækni að geta spilað niðurhalaðar bíomyndir frá Internetinu beint í sjónvarpið svipað og Apple TV og myndlykill símans í dag.

„Um hálfu ári eftir að við Sibba vorum búin að kaupa okkur íbúð, tilkynnti yfirmaðurinn okkur hins vegar að stórfyrirtækið Cisco væri búið að kaupa okkur. Og það sem meira var: Honum og þremur forriturum, þar á meðal mér, var boðið að flytja til Bandaríkjanna og starfa fyrir hið sameinaða félag.“

Það var því ekkert annað hægt en að grípa tækifærið, pakka niður og flytja vestur um haf.

Á Hróaskelduhátíðinni árið 2004, en vinna við þá hátíð byrjaði með honum og Hrannari Hafsteinssyni, sem síðar toguðu alltaf fleiri og fleiri Íslendinga til starfa. Karl segir Hrannar hafa unnið við hátíðina um árabil en með námi í Danmörku vann Karl líka við ýmiss mjög skemmtileg verkefni. Til dæmis dönsku Idol seríuna, Eurovision og fleira.

Íslensk stemning í Bandaríkjunum

Flutningurinn var til Orange County í Kaliforníu, sem Karl segist einfaldlega ekki hafa vitað að væri til þegar tækifærið bauðst.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn hélt ég fyrst að við værum að flytja til Flórída,“ segir Karl og skellir uppúr, því Orange County er til í báðum fylkjum.

Í Orange County var vel tekið á móti þeim og það tryggt að öll aðstoð væri til staðar til dæmis varðandi það að finna húsnæði og fleira fyrir fjölskyldurnar fjórar sem fluttu frá Danmörku.

„Linksys deild Cisco voru þeir fyrstu að þróa WiFi fyrir heimili og þeir byrjuðu því á því að segja okkur að fjarlægja dvd drifið úr spilurunum og einbeita okkur 100% að net-streymi, sem var byrjun streymisveitna eins og við þekkjum í dag. Enda dagar dvd brátt taldir.“ 

Sem reyndist auðvitað rétt, því ekki leið á löngu þar til dvd diskar og útleigur nánast liðu undir lok.

Karl segir Netflix strax þá hafa verið að gera góða hluti.

„Þeir voru auðvitað ekki orðnir þá eins og í dag, en voru þó farnir að skáka aðeins Blockbustersrisanum í Bandaríkjunum vegna þess að Netflix bauð upp á að áskrifendur gátu fengið fjórar myndir sendar á disk til sín heim og þurfti ekkert að spá í skilatíma eða neitt. Til þess að fá nýjar myndir, gat áskrifandi hins vegar ekki verið með fleiri en fjórar myndir í einu og fólk skilaði því diskum til baka ef það viltu fá til sín nýtt efni. Þetta færðist svo í netstreymi eins og við þekkjum í dag, og spilarin okkar var einn af fyrstu til að streyma Netflix myndir yfir Internetið í stað dvd diska.“

Fjölskyldan kunni vel við sig í Bandaríkjunum og segir Karl hópinn frá Danmörku hafa haldist vel saman.

„En eins og aðrir Íslendingar þá gerðum við það sama og venjan er í útlöndum: Fórum að reyna að finna aðra Íslendinga,“ segir Karl og hlær.

Þar nefnir hann sérstaklega mikinn og góðan vinskap við Sirrý Jónasdóttur og Veigar Margeirsson sem þá bjuggu í Los Angeles. Mikill samgangur varð á milli og viðurkennir Karl að hafa séð á eftir þeim þegar þau fluttu til Íslands en þau eru ennþá í góðu sambandi.

„Börnin þeirra­­ eru bæði að gera það gott í tónlistinni á Íslandi, sem er mjög skemmtilegt að fylgjast með.“

Fleiri Íslendingar fluttust síðan til Orange County og þá ekki síst vegna höfuðstöðva Össurar í Bandaríkjunum, sem voru staðsettar steinsnar frá því hvar Karl og fjölskylda býr.

Það myndaðist skemmtileg íslensk kommúna þarna þar sem Íslendingarnir voru duglegir að hittast, grilla saman, spila blak og fleira. 

Flestir í þessum hópi eru þó farnir í dag, enda eignarhaldið á Össuri nú breytt.“

Í dag er eldri dóttir Karls og Sibbu að læra umhverfisfræði í UC Berkeley háskólanum en Tóbías að íhuga að flytja til Íslands þar sem honum langar að fara í nám og æfa fótbolta.

„Það kemst fátt að hjá honum annað en fótbolti og hann varð „starstruck“ á Íslandi þegar víkingaklappið var gert og allur sá fögnuður,“ segir Karl þegar hann rifjar upp velgengni íslenska landsliðsins í fótbolta á EM árið 2016.

Yngsta stelpan er auðvitað enn í grunnskóla en á sumrin fer fjölskyldan alltaf til Íslands í að minnsta kosti mánuð í senn. Foreldrar Karls bjuggu aftur í Danmörku um skeið, en fluttu til Íslands 2022.

En ýmislegt hefur líka breyst í starfsumhverfi Karls. Því þremur árum eftir að fjölskyldan flutti til Bandaríkjanna, urðu aftur breytingar hjá Cisco.

„Við sem töldumst til danska hópsins vorum ekki mjög spenntir fyrir þeim breytingum en vorum í gegnum Cisco komnir með græna kortið og stofnuðum okkar eigið fyrirtæki, GreenWave Reality.“

Það fyrirtæki þróaði snjallljós sem Karl segir þó hafa verið töluvert á undan sinni samtíð.

„Við byrjuðum á því að þróa síma stýrðar Ledperur sem komu út 2010, og skráðum um tuttugu einkaleyfi á þeirri tækni. Perurnar seldust þó ekki vel Því fólk skildi eiginlega ekki hvað þetta var og á þessum tíma var fólk einfaldlega ekki tilbúið til að fara að stjórna einu eða neinu með símanum sínum,“ segir Karl en bætir við:

„Nema auðvitað nördarnir, þeim fannst þetta æðislegt!“

„Við fundum þó annan markað í gegnum orkufyrirtæki í Bandaríkjunum og Evrópu sem voru að keppast um kúnna og buðu snjall perurnar okkar sem sölugulrót.“

Karl í Hollywood House en þegar fjölskyldan flutti til Bandaríkjanna, segir Karl að hann hafi fyrst talið þau vera á leiðinni til Flórída því hann vissi ekkert hvar Orange County var! Þar myndaðist þó skemmtileg stemning meðal Íslendinga sem bjuggu þar, ekki síst á þeim tíma sem Össur var enn íslenskt fyrirtæki með höfuðarstöðvar í Orange County.

Enn stærra tækifæri opnaðist þó þegar Philips setti Hue snjalljósin sín á markað, því þá keyptu þeir öll snjallperu einkaleyfi af GreenWave til að liðka fyrir sinni þróun.

„Peningurinn sem við fengum fyrir þau einkaleyfi dugði til að reka okkar fyrirtæki áfram í amk. tvö ár. GreenWave hætti í snjall perum og framleiðir í dag Wifi Beina fyrir síma fyrirtæki. “

Árið 2014 fór Karl að vinna fyrir austurískt ljósafyrirtæki, sem telst mjög leiðandi á sínu sviði.

„Ljósin í Hörpunni eru til dæmis öll frá þeim.“

Karl segir það þó aldrei hafa komið til að fjölskyldan myndi flytja til Austuríkis, því að þegar þetta tækifæri opnaðist, sagði framkvæmdastjóri fyrirtækisins við Karl:

Ég ætla ekki að fjárfesta í þessari hugmynd en hvernig líst þér á að þú farir að vinna fyrir okkur, opnir skrifstofu fyrir okkur í Orange County og þróir hugmyndina áfram með fleira fólki og á fullum launum.“

Fyrir frumkvöðulinn Karl hljómaði þetta vel, enda var umrædd hugmynd á frumstigi en hún fólst í því að búa til stýrikerfi fyrir byggingar þar sem snjalltæknin væri nýtt.

Til dæmis þannig að sjúkrahús gæti séð hvar í byggingunni hjólastólar væru eða að stórverslanir gætu með snjalltækninni séð hvar innkaupakerrurnar væru og svo framvegis, í gegnum skynjara í ljósunum.“

Næstu fjögur til fimm árin fóru því í þróun á þessari nýju lausn. Sem Karl segir að hafi gengið afar vel og loks kom að því að varan fór á markað og í sölu.

„Þá ákváðu þeir að flytja starfsemina til Portúgal árið 2019 því þar eru launin lægri og ýmislegt fleira. En við sögðum Nei takk og afþökkuðum það boð.“

Aftur var því farið í sjálfstæðan rekstur, Sótspor og í þetta sinn var ætlunin að búa til straum yfir netkapla, þannig að snjalltæknin gæti sparað allt að 40% kolefnisspor við smíði bygginga, vegna þess að ekki væri verið að nota hefðbundna straumkapla.

„Við vorum búnir að vera að grúska í því í um tvo mánuði þegar fyrrverandi starfsfélagi hringir í mig frá fyrirtækinu Belkin , en þeir framleiddu snjalltæki fyrir heimili kölluð undir nafninu Wemo og mikið af vörum fyrir Apple. Þeim vantaði nýjan Director of Products og einhvern til að rífa upp þá deild.

Það voru bara nördarnir að sögn Karls sem fannst fyrstu vörur GreenWave fyrirtækisins æðislegar. Enda skildu fáir fyrir 2010 að í framtíðinni yrði hægt að stjórna nánast öllu úr símanum. á efri mynd til vinstri má sjá fyrsta snjallperu sett GreenWave og á neðri mynd má sjá Wemo Doorbell, sem er ein af mörgum vörum sem Karl þróaði hjá Belkin.Karl/Vilhelm

„En ég setti það skilyrði að ég hefði leyfi til þess að vinna áfram að Sótspori,“ segir Karl og útskýrir að hann hafi mikla trú á því að margt þurfi einmitt að breytast með tilliti til loftlagsbreytinga og því sé hann enn á fullu að vinna fyrir Sótspor líka.

Árið 2022 vorum við komin með þrjú einkaleyfi í því fyrirtæki og prótótýpu sem virkaði, svo ég ákvað að kveðja Belkin og hoppa í djúpu laugina með SótSpor því ég hafði mikla trú á þessari lausn. 

Ég ákvað að sameinast öðru tíu manna sprotafyrirtæki frá Aspen Colorado, og við breyttum sameiginlega nafninu í LUUM.iO.

Karl segir það líka hafa breyst síðustu misseri að þótt hann hafi í fyrri störfum oft unnið mikið með Asíu, sé hann mikið að vinna með framleiðslu á Indlandi í dag.

„Það er mikil gróska á þeim slóðum núna og 80% af sölu LUUM.IO er á Indlandi og í Arabalöndunum á meðan Bandaríkin séu um 20%.

Að öllu jöfnu myndu flestir telja að Sótspor sem varð að LUUM.IO væri mikið meira en nóg. En það er þó langur vegur frá.

Bakgarðurinn heima hjá Karli ber þess glöggt merki að ástríðan hans fyrir ljósum og ljósaperum á svo sannarlega við enn. Enda ræktar hann það áhugamál í gegnum fyrirtækið Visiolite, þar sem Karl hefur þróað litaljós sem gefur afar fallega birtu og margir listamenn og ljósahönnuðir eru einkar áhugasamir um. 

„Nei ég hef aldrei sagt skilið við ástríðuna á ljósaperunum sem ég fékk þegar ég var lítill. Því fyrirtækið Visiolite stofnaði ég árið 1999 og notaði það þá helst fyrir verkefnin sem ég vann í Danmörku með skóla. Í gegnum það fyrirtæki seljum við í dag litaljós sem listamenn og ljósahönnuðir hafa mikinn áhuga á, því ljósin sem við þróuðum ná að varpa birtu og litum sem eru nánast eins og í alvörunni, til dæmis birtan sem sólarlagið gefur,“ segir Karl stoltur.

Hann segir starfsemi Visiolite þó eiginlega flokkast undir að vera hobbý frekar en starf, en þar fær hann þó útrás fyrir ljósaperu og lita áhuganum.

En hvaða ráð getur Karl gefið öðrum, sem mögulega langar til að spreyta sig með nýsköpun og hugmyndir í stóru landi eins og Bandaríkjunum?

„Ég myndi segja að gamla og góða orðatiltækið Þetta reddast eigi nokkuð vel við því það hefur alltaf svolítið setið í mér þegar við höfum ráðist í eitthvað nýtt hér. Maður veit alltaf að ef eitthvað gengur ekki upp, er alltaf hægt að fara til baka til Íslands. Þann lúxus hafa bandarískir vinir mínir ekki. Þeir leggja kannski allt undir eins og við, en það er ekkert sem heitir Þetta reddast hjá þeim og þá hægt að flytja bara aftur heim.“


Tengdar fréttir

„What do you mean by shit-mix, are you mixing the shit?“

„Jú auðvitað kenndi ég þeim líka að skítamixa stundum. Því í öllum flóknum verkefnum má gera ráð fyrir að á einhverjum tímapunkti þurfi eitthvað skítamix og þar erum við Íslendingar einfaldlega heimsmeistarar,“ segir Anna Margrét Gunnarsdóttir eigandi Altso samskiptaráðgjafar og hlær.

„Leitaði að Íslendingalegu og vel treystandi fólki á flugvellinum“

„Þá fór þetta þannig fram að maður tók myndir á svart hvíta filmu en skrifaði fréttina á ritvél, eða einfaldlega handskrifaði hana á pappír. Fréttina og filmuna setti maður síðan í umslag, fór á Kastrup og leitaði að Íslendingalegu og vel treystandi fólki á flugvellinum og bað það um að flytja umslagið með sér heim,“ segir Þórir Guðmundsson þegar hann rifjar upp hvernig blaðamannastarfið fór fram í upphafi.

Sendur ungur til Dan­merkur vegna aga­leysis á Akur­eyri

Fyrir tveimur árum síðan kom netfataverslunin Boozt inn á íslenska markaðinn. Með látum má segja. Velti til dæmis netversluninni Asos úr sessi með markaðshlutdeild á aðeins örfáum vikum. Og samkvæmt frétt Innherja Vísis haustið 2021, versluðu Íslendingar fatnað hjá Boozt fyrir tæpan milljarð fyrsta hálfa árið. „Það ætlaði allt um koll að keyra,“ er kannski orðatiltæki sem ætti vel við hér.

Íslensk á lista Forbes: Til dæmis hægt að hjálpa lömuðum að ganga

Það er magnað að heyra Gretu Preatoni ræða starf sitt. Til dæmis þegar hún er að segja frá því hvernig hægt er að hjálpa lömuðu fólki að ganga á ný. Eða að draga úr sársauka og auka á snertifilfinningu fólks sem hefur misst útlimi. Allt með aðstoð gervigreindar og nýjustu tækni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×