Körfubolti

Fyrsta skiptið í úr­slita­keppninni eftir „Guð blessi Ís­land“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það verður örugglega mikil spenna og mikið stuð á pöllunum þegar oddaleikirnir fara fram.
Það verður örugglega mikil spenna og mikið stuð á pöllunum þegar oddaleikirnir fara fram. Vísir/Hulda Margrét

Keflvíkingar tryggðu sér í gær oddaleik í undanúrslitaeinvígi sínu á móti Grindavík í úrslitakeppni Subway deild karla í körfubolta. Það þýðir að við fáum oddaleik í báðum undanúrslitaeinvígunum í ár.

Nágrannar þeirra í Njarðvík höfðu kvöldið áður tryggt sér oddaleik á móti deildarmeisturum Vals. Báðir oddaleikirnir fara fram á þriðjudagskvöldið.

Það er óhætt að segja að það sé ekki árlegur viðburður að fá hreinan úrslitaleik í báðum einvígum. Þetta er nefnilega í fyrsta skiptið í sautján ár sem að það verða tveir oddaleikir um það að fá að spila um Íslandsmeistaratitilinn það vorið.

Við þurfum því að fara aftur fyrir „Guð blessi Ísland“ og bankahrunið til að finna síðustu úrslitakeppni karla þar sem bæði undanúrslitaeinvígin enduðu í hreinum úrslitaleik.

Vorið 2007 fóru oddaleikir fram í undanúrslitum í Ljónagryfjunni í Njarðvík og í DHL-höllinni í Vesturbænum.

Njarðvík vann þá 83-70 sigur á Grindavík á heimavelli sínum og KR vann 76-74 sigur á Snæfelli í framlengdum leik í Frostaskjólinu. Brynjar Þór Björnsson kom þá leiknum í framlengingu með eftirminnilegri þriggja stiga körfu og Darri Hilmarsson skoraði síðan sigurkörfuna í framlengingunni.

Það hefur þurft að vinna þrjá leiki í undanúrslitunum frá og með árinu 1995 og þetta verður aðeins í þriðja skiptið þar sem bæði einvígin enda í leik fimm.

Hitt skiptið var vorið 2000 þegar KR og Grindavík komust bæði í úrslitaeinvígið með því að vinna oddaleik á útivelli, KR-ingar í Ljónagryfjunni en Grindvíkingar í Strandgötu í Hafnarfirði.

Fyrir 1995, þegar það þurfti bara að vinna tvo leiki til að komast í úrslitin, þá gerðist það þrisvar sinnum að bæði undanúrslitaeinvígin enduðu í oddaleik eða 1988, 1992 og 1994.

  • Úrslitakeppnir þar sem bæði undanúrslitaeinvígin enduðu í oddaleik
  • -

  • - Þegar þarf að vinna þrjá leiki -
  • 2024
  • Valur 2-2 Njarðvík  (Fimmti leikur annað kvöld)
  • Grindavík 2-2 Keflavík (Fimmti leikur annað kvöld)
  • 2007
  • Njarðvík 3-2 Grindavík
  • KR 3-2 Snæfell
  • 2000
  • Njarðvík 2-3 KR
  • Haukar 2-3 Grindavík
  • -
  • - Þegar þarf að vinna tvo leiki -
  • 1994
  • Keflavík 1-2 Njarðvík
  • Grindavík 2-1 ÍA
  • 1992
  • Njarðvík 1-2 Valur
  • Keflavík 2-1 KR
  • 1988
  • Njarðvík 2-1 Valur
  • Keflavík 1-2 Haukar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×