Gagnrýni

Fal­leg tón­list GDRN hljómaði ekki nógu vel

Jónas Sen skrifar
GDRN ásamt hljóðfæraleikurum, kór og gestasöngvurum.  Eldborg í Hörpu laugardaginn 11. maí.
GDRN ásamt hljóðfæraleikurum, kór og gestasöngvurum. Eldborg í Hörpu laugardaginn 11. maí. Jónas Sen

Ég hitti mann nýlega sem kvartaði yfir því hve margar íslenskar söngkonur rauli. „Ekki Björk, sko – hún SYNGUR – en svo margar aðrar syngja bara í hálfum hljóðum. Það er varla að þær séu með raddbönd.“

Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir, eða GDRN eins og hún kýs að kalla sig, er í þessum flokki. Hrópandi dæmi um það er platan Tíu íslensk sönglög. Þar syngur hún Ég veit þú kemur, Hvert örstutt spor og annað í þeim dúr. Það getur varla talist merkilegur söngur.

Meira gaman er að tónlist Guðrúnar sjálfrar. Á tónleikum í Eldborg í Hörpu á laugardagskvöldið var brugðið upp þverskurði af höfundarverki hennar í gegnum tíðina. Sú tíð er reyndar ekki mjög löng, því GDRN skaust fram á sjónarsviðið fyrir sex árum síðan.

Minnti á Sade

Á tónleikunum minnti hún dálítið á Sade. Mild röddin er ekkert svo ósvipuð og tónlistin, þótt ekki sé hægt að kalla hana djass, er engu að síður ekki langt frá honum. Líklega flokkast hún undir stefnu sem kallast Quiet Stom, eða Þögull stormur. Stefnan kom fram á áttunda áratugnum og einkennist af mjúku, rómantísku, djassskotnu poppi.

Lögin á tónleikunum létu yfirleitt vel í eyru. Þau voru grípandi og skemmtilega fjölbreytt. Fínleg rödd GDRN hefur sérstakan blæ, og söngkonan hafði sterkt karisma sem hreif áheyrendur með sér. Fagnaðarlætin á tónleikunum báru vitni um það.

Tónleikarnir voru töluvert „show“ eins og sagt er. Nokkrir gestasöngvarar á borð við Sigurð Guðmundsson, Sigríði Thorlacius og Jón Jónsson krydduðu dagskrána. Í völdum atriðum kom einnig fram kór og strengjakvartett, sem var allt saman mjög tilkomumikið.

Slæmu fréttirnar

Þetta eru góðu fréttirnar. Þær slæmu eru að hljóðið á tónleikunum var ekkert sérstakt. Hljómsveitin spilaði vissulega vel, en hljómurinn í henni var afskaplega blæbrigðarýr. Trommurnar voru yfirleitt of háværar. Það var eins og aðeins ein stilling væri á þeim, og skipti þá engu hvort allt var í botni eða flutt var rólegt lag. Téður strengjakvartett hljómaði harður og fyrir bragðið illa, og heilt yfir vantaði öll litbrigði í hljóðheiminn.

Eins og fyrr segir hefur GDRN ekki mikla rödd, og hún nýtur sín betur í stúdíói. Í hljóðmixi á plötum er hægt að fínstilla hvert hljóðfæri út í það óendanlega. Þannig má passa að gott jafnvægi sé á milli hljóðfæra og söngs. Þetta var ekki upp á teningnum á tónleikunum. Heildarhljómurinn var hrjóstrugur og skítugur. Fyrir vikið naut tónlistin sín sjaldnast vel. Það var eins og að mismunandi raddir hljómsveitar og söngvara væru að berjast innbyrðis.

Yfirborðsleg sóló

Eins og áður sagði var hljómsveitin með allt á hreinu. Einhverjir hljómsveitarmeðlimir tóku nokkur sóló, sem voru yfirleitt glæsileg en bættu ekki miklu við tónlistina. Þau voru meira eins og spilararnir væru að sýna hve þeir voru flinkir. Útkoman var því fremur yfirborðsleg.

Þegar allt ofangreint er tekið með í reikninginn þá verður að segjast eins og er að tónleikarnir voru bara í meðallagi skemmtilegir. Eins og áður var greint frá hefur GDRN sjarmerandi rödd þótt hún sé takmörkuð og lögin hennar eru falleg og lokkandi. En það dugði ekki til. Maður hafði á tilfinningunni að dagskráin hefði ekki verið æfð mikið og hljóðprufan á undan bara í skötulíki. Það getur varla talist gott.

Niðurstaða: Falleg tónlist og heillandi rödd en lélegt hljóð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×