Erlent

„Rúss­neskum lögum“ hraðað á­fram þrátt fyrir há­vær mót­mæli

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælendur veifuðu georgíska fánanum við þinghúsið í Tíblisi snemma í morgun. Mótmæli gegn rússnesku lögunum hafa verið daglegt brauð undanfarnar vikur.
Mótmælendur veifuðu georgíska fánanum við þinghúsið í Tíblisi snemma í morgun. Mótmæli gegn rússnesku lögunum hafa verið daglegt brauð undanfarnar vikur. AP/Zurab Tsertsvadze

Georgísk þingnefnd afgreiddi umdeild „rússnesk lög“ á rétt rúmri mínútu í morgun þrátt fyrir fjölmenn mótmæli við þinghúsið um helgina sem héldu áfram í dag. Mikil lögregluviðbúnaður er við þinghúsið og frásagnir eru um harkaleg átök lögreglu og mótmælenda.

Frumvarp sem skilgreinir félagasamtök og frjálsa fjölmiðla sem útsendara erlendra ríkja ef þeir fá meira en fimmtung tekna sinna erlendis frá hefur vakið hörð viðbrögð í Georgíu. Þau þykja í anda rússneskra laga sem stjórnvöld í Kreml hafa ítrekað notað til þess að bæla niður andóf og þagga niður í fjölmiðlum. Því hafa gagnrýnendur georgíska frumvarpsins uppnefnt það „rússnesku lögin“.

Tugir þúsunda manna mótmæltu við þinghúsið í höfuðborginni Tíblisi um helgina. Mótmælin héldu áfram í nótt og fram á morgun þrátt fyrir að lögregla hafi dreift mótmælendum í gær. Þegar þingmenn stjórnarflokksins Georgíska draumsins, sem er hallur undir Rússa, mættu hrópuðu mótmælendur „þrælar“ og „Rússar“ að þeim, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Þingmennirnir létu það ekki á sig fá. Þegar málið var tekið fyrir á fundi þingnefndar afgreiddu stjórnarþingmenn það á 67 sekúndum. Að óbreyttu gengur frumvarpið til þriðju og síðustu umræðu á morgun. Mótmælendur hafa heitið því að koma í veg fyrir að frumvarpið verði að lögum.

Myndir og myndbönd af átökum mótmælenda og lögreglumanna hafa birst á samfélagsmiðlum í morgun. Mótmælendur hafa áður lýst því hvernig þeir hafi verið beittir ofbeldi og sætt ógnunum lögreglu undanfarnar vikur. Evrópusambandið og Bandaríkjastjórn hafa lýst áhyggjum af framferði georgískra yfirvalda í garð mótmælendanna.


Tengdar fréttir

Umfangsmikil mótmæli vegna „rússneskra“ laga í Georgíu

Umfangsmikil mótmæli hafa átt sér stað í Georgíu þar sem yfirvöld vinna að því að samþykkja ný og mjög svo umdeild lög. Mótmælendum hefur verið mætt af mikilli hörku og hefur komið átaka í Tíblisi bæði fyrir utan þinghúsið og þar inni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×